Fara í innihald

Aðferðafræðileg náttúruhyggja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Aðferðafræðileg náttúruhyggja er heimspekilegt viðhorf, sem á oft rætur að rekja til efnishyggju og gagnhyggju, sem hafnar greinarmuninum á því náttúrulega og yfirnáttúrulega. Náttúruhyggja þarf ekki nauðsynlega að halda því fram að svokölluð yfirnáttúruleg fyrirbæri séu ekki til (þótt flestir náttúruhyggjumenn hafi verið þeirrar skoðunar) en heldur því fram að öll fyrirbæri sé hægt að rannsaka með sömu aðferðum og þar af leiðandi sé ekkert réttilega nefnt yfirnáttúrulegt eða í eðli sínu ólíkt náttúrulegum fyrirbærum.

Segja má að sérhver aðferðafræði eða rannsókn sem takmarkar sig við hið náttúrulega, efnislegar skýringar sé í anda aðferðafræðilegrar náttúruhyggju.

Margir nútíma vísindaheimspekingar nota hugtakið aðferðafræðileg náttúruhyggja eða vísindaleg náttúruhyggja til að vísa til hinnar löngu hefðar vísindalegrar aðferðar í vísindum, sem gengur út frá því að atburði í náttúrunni sé einungis hægt að útskýra með tilvísun til náttúrunnar, án þess að gera ráð fyrir tilvist einhvers yfirnáttúrulegs, og líta því gjarnan svo á að yfirnáttúrulegar skýringar á slíkum atburðum séu utan sviðs vísindanna. Þeir gera greinarmun á þessu viðhorfi og verufræðilegri náttúruhyggju eða frumspekilegri náttúruhyggju, sem er það frumspekilega viðhorf að heimur náttúrunnar, hinn efnislegi heimur, sé allt sem til er og því sé ekkert yfirnáttúrulegt til.

Aðferðafræðileg náttúruhyggja og frumspekileg náttúruhyggja

[breyta | breyta frumkóða]

Frumspekileg náttúruhyggja, sem er stundum nefnd „heimspekileg náttúruhyggja“ eða „verufræðileg náttúruhyggja“, tekur verufræðilega afstöðu gagnvart náttúruhyggjunni. Verufræði er spurning um hvort og í hvaða skilningi eitthvað er til. Frumspekileg náttúruhyggja er því það viðhorf að hið yfirnáttúrulega sé ekki til og felur því í sér guðleysi eða sterkt trúleysi.

Aftur á móti er aðferðafræðileg náttúruhyggja fólgin í því að „gera ráð fyrir frumspekilegri náttúruhyggju sem hluta vísindalegrar aðferðar óháð því hvort fallist er á frumspekilega náttúruhyggju sem slíka [...] vísindi eru ekki frumspekileg og árangur þeirra veltur ekki endanlega á neinni frumspeki (þótt vísindin hafi frumspekilegar afleiðingar), en taka verður upp frumspekilega náttúruhyggju sem aðferð eða vinnutilgátu ef vísindin eiga að ná einhverjum árangri. Við getum þess vegna frestað dómi um hvort [frumspekilega] náttúruhyggjan sé á endanum sönn en verðum engu að síður að beita henni og rannsaka náttúruna líkt og ekkert annað sé til en heimur náttúrunnar.“[1]

Líklega eru allir málsvarar frumspekilegrar náttúruhyggju hallir undir aðferðafræðilega náttúruhyggju (þótt vissulega sé mögulegt að telja - mótsagnarlaust - að ekkert yfirnáttúrulegt sé til en fallast samt á að gera ekki ráð fyrir náttúruhyggju sem vísindalegri aðferð). Hins vegar er ekki eins víst að allir málsvarar aðferðafræðilegrar náttúruhyggju séu einnig málsvarar frumspekilegrar náttúruhyggju.

Náttúruhyggja sem þekkingarfræði

[breyta | breyta frumkóða]

W.V.O. Quine lýsir náttúruhyggju sem þeirri afstöðu að það sé enginn æðri dómari fyrir sannleikann en náttúruvísindin sjálf. Það er engin betri aðferð en hin vísindalega aðferð til þess að skera úr um hvort fullyrðingar vísindanna séu sannar eða ekki, og það er ekki heldur nein þörf á „fyrstu heimspeki“, á borð við frumspeki eða þekkingarfræði, til að standa að baki vísindunum og réttlæta þau eða hina vísindalegu aðferð.

Heimspekin ætti þess vegna að gera sér gagn úr niðurstöðum vísindamanna í viðleitni sinni en um leið leyfa sér að gagnrýna þegar fullyrðingar þeirra eru undirstöðulausar, byggðar á ruglingi eða mótsagnakenndar. Þannig verður heimspekin „hluti af“ vísindunum. Náttúruhyggja er ekki sú kreddukennda trú nútímavísindi séu aðöllu leyti rétt. Hún heldur því aftur ámóti fram að útskýringar á atburðum í heiminum verði að vera vísindalegar.

Náttúruhyggja og hugspeki

[breyta | breyta frumkóða]

Deilt er um það hvort náttúruhyggja hafni í eðli sínu algerlega ákveðnum sviðum heimspekinnar eins og til dæmis merkingarfræði, siðfræði og fagurfræði, eða hafni notkun orða sem vísi til hins hugræna („trúir“, „hugsar“) í hugspeki. Quine forðaðist flest þessi efni en sumir heimspekingar hafa að undanförnu fært rök fyrir því að jafnvel þótt samkvæmt þeim sé ekki hægt að þýða hugrænar lýsingar og gildisdóma kerfisbundið yfir á efnislegar lýsingar, þá sé ekki þar með sagt að gera verði ráð fyrir tilvist neins annars en efnislegra fyrirbæra.

Donald Davidson hefur til dæmis fært rök fyrir því að tiltekið hugarástand geti verið (og raunar verði að vera) það sama og tiltekið heilaástand, jafnvel þótt ekki sé hægt að segja kerfisbundið að tiltekið hugarástand sé ákveðin tegund heilaástands (ákeðið mynstur taugavirkni): hið fyrra er aukageta hins síðara. Afleiðing þessa er sú að náttúruhyggja getur látið „óefnislegan“ orðaforða í friði þegar notkun hans er hægt að útskýra í anda náttúruhyggjunnar.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „„Naturalism is an Essential Part of Science". Afrit af upprunalegu geymt þann 25. janúar 2021. Sótt 22. október 2006.