Arthur Friedenreich

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Arthur Friedenreich (f. 18. júlí 1892 - 6. september 1969) var brasilískur knattspyrnumaður sem átti glæstan feril á öðrum og þriðja áratug tuttugustu aldar. Hann var fyrsta stórstjarnan í sögu brasilísku knattspyrnunnar sem var af blönduðum kynþáttum. Friedenreich fékk meðal annars viðurnefnið Svarta perlan, fyrstur fjölmargra knattspyrnumanna.

Líf og keppnisferill[breyta | breyta frumkóða]

Arthur Friedenreich.

Arthur Friedenreich fæddist í São Paulo, sonur athafnamanns af þýskum ættum og þeldökkrar þvottakonu sem var dóttir leysingja. Um þær mundir var hörð kynþáttahyggja ríkjandi í brasilísku samfélagi og voru knattspyrnufélög landsins einungis ætluð hvítu fólki. Friedenreich þurfti því í fyrstu að ljúga til um uppruna sinn og varði löngum stundum í að greiða hár sitt slétt fyrir kappleiki, til að blekkja dómara og áhorfendur. Hann þurfti að sæta margháttuðu misrétti og kynþáttafordómum allan sinn feril. Til að mynda var hann ekki valinn í landslið Brasilíu á Copa América árið 1921, þar sem gestgjafaþjóðin Argentína tilkynnti að einungis hvítir leikmenn mættu keppa.

Árið 1914 var Friedenreich valinn í brasilíska landsliðið sem þá kom saman í fyrsta sinn til að mæta enska félagsliðinu Exeter City. Alls lék hann 23 landsleiki fyrir hönd Brasilíu og var í sigurliði landsins á Copa América árin 1919 og 1922. Hann var jafnframt aðalstjarnan í keppnisferð brasilíska landsliðsins til Evrópu árið 1925, en það reyndust síðustu landsleikir hans.

Atvinnumennska var tekin upp í brasilísku knattspyrnunni árið 1933. Friedenreich, sem enn var í fullu fjöri þrátt fyrir að háan aldur miðað við knattspyrnumenn, reiddist þeirri ákvörðun mjög og lagði skóna á hilluna 43 ára gamall, sumarið 1935. Knattspyrnuferill hans í meistaraflokki spannaði því 26 ár sem var fáheyrt á tímum þar sem leikmenn hættu yfirleitt fyrir þrítugt.

Friedenreich greindist með Alzheimer-sjúkdóminn sem dró hann að lokum til dauða árið 1969 eftir langa baráttu.

Markamet?[breyta | breyta frumkóða]

Friedenreich í leik gegn franska liðinu Stade Français í Evrópuferð landsliðsins 1925.

Veikindi Friedenreich áttu sinn þátt í að skapa ráðgátuna um markaskorun hans. Lítið var haldið utan um tölfræði í brasilísku knattspyrnunni áður en atvinnumennska kom til sögunnar. Lið létu fjölda vináttuleikja. Í stað þess að leikmenn léku einvörðungu fyrir eitt lið, voru leikir úrvalsliða algengir og fáir hirtu um að halda utan um markaskorara.

Þegar áhugi á tölfræði tengdri knattspyrnu fór að vaxa, reyndu áhugamenn að grafa upp upplýsingar um úrslit og markaskorara fyrr á tíð. Friedenreich hafði orðspor sem mikill markahrókur og gengu sögur af ævintýralegri markaskorun hans. Erfitt var að sannreyna gögn, einkum þar sem leikmaðurinn sjálfur gat litla hjálp veitt vegna veikinda sinna. Sú tala komst á kreik að Friedenreich hefði skorað 1329 mörk í 1229 leikjum, sem hefði gert hann að langmarkahæsta leikmanni knattspyrnusögunnar. Þótti ýmsum sú tala grunsamleg og að líklega hefði tölunum verið víxlað, mörkin hafi verið 1229 í 1329 leikjum.

Varfærnari talningar, byggðar á staðarblöðum í São Paulo, hafa lækkað markatölur Friedenreich verulega. Ævisagnaritari Friedenreich reiknaði sig að tölunni 554 mörk í 561 leik, sem engu að síður setur hann hátt á heimslistann.