Apó

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Apó er hæsta fjall Filippseyja

Apó er eldfjall á Filippseyjum og jafnframt hæsta fjall landsins. Ekki er vitað hvort eldfjallið er virkt, en það er einn vinsælasti áfangastaður útivistar- og fjallgöngumanna á Filippseyjum. Fjallið er þjóðgarður og er á heimsminjaskrá UNESCO.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Apó er sunnarlega á eyjunni Mindanaó, í héraðinu Cotobato. Stórborgin Davaó er 40 km í norðvestri frá tindinum, Digos City 25 km til norðausturs og Kidapawan City 20 km til vesturs. Apó er 2.954 m hátt og þarmeð hæsta fjall Filippseyja. Gígskálin er lítil, aðeins 500 m í þvermál, en í kringum hana eru þrír tindar. Ekki er vitað hvenær Apó gaus síðast, en ekkert gos hefur verið í því á sögulegum tíma. Nokkur jarðhiti er í fjallinu. Þar er einnig jarðvarmaorkuver, hið eina slíka á Mindanaó. Það framleiðir 106 MW. Í hlíðum Apó og við fjallsræturnar búa 6 mismunandi ættbálkar manna: Manobo, Bagobo, Ubo, Ata, K‘Iagan og Tagacaolo. Fólk þetta lítur á Apó sem heilagt fjall.

Þjóðgarður og heimsminjar[breyta | breyta frumkóða]

Bikarblóm í regnskógi við Apó

1936 var Apó lýstur þjóðgarður af Manuel Quezon forseta og 2004 sem náttúruverndarsvæði. 2009 var svæðið síðan sett á heimsminjaskrá UNESCO, enda einstakt í heimi fyrir að hýsa dýra- og plöntutegundir sem finnast hvergi annars staðar. Þar verpa t.d. 272 fuglategundir, en af þeim finnast 111 tegundir hvergi annars staðar. Þjóðarfugl Filippseyja og ein stærsta arnartegund heims verpir eingöngu þarna og er í útrýmingarhættu. Í fjallinu eru þrenns konar frumskógar sem ná nærri því alla leið á tindinn.

Útivistarsvæði[breyta | breyta frumkóða]

Apó er eitt vinsælasta útivistarsvæði Filippseyja. Það var svo vitað sé fyrst klifið 10. október 1880 af Don Joaquin Rajal, spænska landstjóranum í Davaó. Á síðustu áratugum streymir fólk upp á tindinn, sem þykir frekar auðveldur viðfangs og krefst ekki mikillar sérkunnáttu. Hins vegar tekur tvo til fjóra daga að komast á tindinn og til baka, allt eftir því hvaða leið er farin. Hundruðir manna fara á tindinn árlega.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]