Anne Palles

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Anne Palles (1619 – 4.apríl 1693) var dönsk kona sem talin var galdranorn. Hún er síðasta manneskjan sem var dæmd fyrir galdra og brennd á báli í Danmörku.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1692 var kona að nafni Karen Gregers Madsens from Lommelev ákærð fyrir eiturbyrlun. Ingeborg Olufsdatter í Nykøbing Falster hafði fengið hana til að eitra fyrir og myrða ofbeldisfullan eiginmann sinn Oswald Egger að nafni. Karen stakk upp á að Egger yrði látinn éta bein úr líki þannig að hinn dauði kæmi og dræpi hann. Elskhugi Ingeborgar Ole Boesen útvegaði beinið en það virkaði ekki og var því Egger drepinn með eitri. Karen var yfirheyrð af sex prestum og játaði þá á sig að stunda svartagaldur og benti aðrar konur Anne Kruse, Abigael Nielsdatter og Anne Palles í Tåderup og sagði að þær væru einnig galdanornir. Einnig benti hún á 96 viðskiptavini.

Anne Palles var leidd fyrir rétt árið 1692 og ákærð fyrir að hafa beitt göldrum á móti óðalseigandanum Morten Faxe. Hann hafði tekið yfir bændabýli í Øverup sem áður var í eigu Anne Palles og Peder eiginmanns hennar. Áður en hún yfirgaf bóndabýlið sem hún var rekin frá vegna þess að óðalseigandinn þurfti meira rými var hún talin hafa formælt því með því að pissa á hlaðinu. Eftir það hafði Faxes fjölskyldunni liðið illa í húsinu og kvikfé þeirra veikst. Karen sagðist hafa séð til Anne við formælingarnar. Bóndabýlið sem Anne hafði gengið frá hafi verið góðbýli og hafði Anne erft það frá fyrri manni sínum Niels og var talið að seinni maður hennar hefði kvænst henni vegna þessar eignar og eftir að þau misstu býlið hafði hjónabandið verið ógæfusamt.

Anne var einnig ákærð fyrir að hafa myrt með göldrum konu sem eiginmaður hennar lagði hug á. Árið 1691 mun eiginmaður hennar hafa dansað og duflað við konu að nafni Maren Jacobsdatter og Anne þá heitið því að Maren yrði fyrir slysi svo að hún gæti ekki lengur dansað við eiginmenn annarra og verið dáð af þeim. Skömmu seinna varð Maren veik og dó. Anne var einnig ákærð fyrir að hafa eyðlagt uppskeru fyrir manni að nafni Hans Sværke en hann hafði neytt son Anne til að ganga í herinn.

Anne Palles var komið fyrir í fangelsi í Nykøbing Slot þann 31. ágúst 1692. Prestaflokkur yfirheyrði hana áður en formleg réttarhöld hófust. Þegar réttarhöld hófust 27. september 1692 þá játaði hún á að vera galdranorn. Hún sagðist hafa farið til fundar við Djöfulinn í gervi svarts kattar að nafni Puus, sem kallaði hana Annis, og hún hefði gefið honum sál sína og líkama. Hún var ekki viss um hvort þetta hefði gerst fyrir sex árum eða fimmtíu árum eða á þeim fjórum árum sem hún var gift fyrri manni sínum. Hún sagðist hafa notið aðstoðar á býlinu frá Djöflinum sem þá tók á sig líki hests eða kindur og hefði Satan staðið sína plikt og verið fóðraður með haframjöli. Hún sagðist einnig hafa tekið þátt í nornamessum á Hesnæs með hinum konunum sem ákærðar voru fyrir galdra. Á þeim messum hefði Hans Stang frá Hasselø spilað á trommur á meðan Abigael Nielsdatter sem Satan kallaði ”Biegell” dansaði í miðju; Abigael sagðist einnig hafa getað notað Satan sem reiðskjóta á ferðum til þrándheims í Noregi.

Þann 2. nóvember 1692 dæmdi rétturinn undir forustu dómarans Morten Faxe hana seka og til lífláts. Þegar svo skyldi staðfesta dóminn við Hæsta rétt Danmerkur þá dró Anne Palles játningu sína til baka og sagðist eingöngu hafa játað vegna þess að prestarnir hefðu pyntað hana í fangelsinu. Hún kvaðst ekki hafa þorað að draga játninguna fyrr til baka því að einn prestur hafði hótað því að ef hún gerði það þá yrði tungan rifin út úr henni og hún brennd lifandi á báli. Greidd voru atkvæði í hæsta rétti í Kaupmannahöfn og vildi meirihlutinn aftöku. Anne Kruse var einnig dæmd til að líflátast en hún dó í fangelsi áður en aftakan fór fram. Abigael Nielsdatter var sleppt lausri en gerð útlæg og brottræk vegna slæms orðspors og Karen fræa Lommelev var hýdd og bannfærð.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]