Andy Murray

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Andy Murray (2014)

Andy Murray (f. 15. maí 1987 í Glasgow) er skoskur tennisleikari. Í mars 2018 var hann talinn vera 29. besti tennisleikari í einleik karla. Murray keppir fyrir hönd Bretlands á alþjóðlegum keppnismótum. Hann hefur unnið fjölda keppna og bikara, meðal annars tvisvar sinnum bikar á Ólympíuleikunum.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Andy er sonur Judy, sem er tennisþjálfari, og William Murray. Andy á einn bróður, Jamie sem hefur einnig notið velgengni sem tennisleikari. Afi þeirra, Roy Erskine lék fótbolta með Hibernian F.C. fótboltaliðinu frá Leith í Edinborg.

Andy hóf kornungur að leika tennis, einungis þriggja ára gamall að sagt er. Hann tók þátt í móti í fyrsta sinn fimm ára gamall og var farinn að keppa við fullorðna átta ára.

Atvinnumannaferill[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1999, þegar Andy var tólf ára gamall tók hann þátt í Junior Orange Bowl keppninni fyrir unga tennisleikara og vann hana. Hann vann sömu keppni aftur tveimur árum seinna og er einn af aðeins níu tennisleikurum sem hafa unnið keppnina tvisvar.

Í september 2003 vann Andy í fyrsta sinn keppnismót fyrir eldri tennisleikara þegar hann sigraði Glasgow Futures. Hann komst í undanúrslit Edinburgh Futures sama ár.

Árið 2005 var Andy í 407 sæti yfir tennisleikara í heiminum. Á ferli hans sem spannar nú 13 ár hefur hann unnið til fjölda bikara en einnig liðið fyrir erfið meiðsl svo sem erfið mjaðmarmeiðsl sem hrjáðu hann í byrjun 2018.

Árið 2012 var Andy fyrsti Bretinn í meira en hálfa öld til þess að keppa í úrslitaleik á Wimbledon-keppnismóti sem hann tapaði gegn Svisslendingnum Roger Federer. Andy varð svo um að tapa að hann felldi tár í viðtalinu strax eftir einvígið. Aðeins nokkrum vikum seinna keppti Andy á sama leikvangi en nú á Sumarólympíuleikunum 2012 þar sem mætti Federer á ný en í þetta skipti vann hann. Fjórum árum seinna vann Andy á ný á Sumarólympíuleikunum 2016.

Árið 2013 vann hann Wimbledon mótið þar sem hann sigraði Novak Djokovic í lokaeinvíginu. Þetta var í fyrsta sinn síðan 1936 sem að Breti vann keppnismótið og í fyrsta sinn í meira en öld sem að Skoti vann það. Árið 2015 var Andy hluti af breska tennisliðinu sem vann Davis-bikarinn, og var það í fyrsta sinn sem Bretland vann þann bikar síðan 1936.

Árið 2016 var líklega farsælasta ár Andys á atvinnumannaferli hans því til viðbótar við að sigra á Sumarólympíuleikunum það árið vann hann einnig Wimbledon mótið og var í fyrsta sæti á listanum yfir bestu tennisleikara heims.

Annað[breyta | breyta frumkóða]

Andy skilgreinir sjálfan sig sem femínista.