Fara í innihald

Anastasía Níkolajevna stórhertogaynja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Anastasia)
Anastasia

Hennar keisaralega hátign Anastasía, stórhertogaynja af Rússlandi (18. júní 190117. júlí 1918) var yngst af dætrum Nikulásar 2. Rússakeisara. Hún var skírð Anastasíja Níkolajevna Romanova eða Анастасия Николаевна Романова á rússnesku.

Anastasía var sögð stelpuglopi og afar klár. Hún þótti góð eftirherma og kaldhæðin. Hún og eldri systir hennar María voru kallaðar „litla parið“ innan fjölskyldunar og þær deildu saman herbergi eins og tvær eldri systur þeirra. Anastasía átti einn yngri bróður, Aleksej, sem haldinn var dreyrasýki. Móðir þeirra hafði stöðugar áhyggjur af Aleksej, en ólíklegt þótti að hann myndi komast til fullorðinsára. Anastasía var afar hrifin af dýrum og átti tvo hunda, Shípka og Jemmy. Henni þótti mjög vænt um þá báða og þeir fylgdu henni jafnan.

Anastasía og allar aðrar konur í fjölskyldu hennar höfðu rauðbrúnt hár og blá augu, en þær þóttu einstaklega fallegar. Foreldrar Anastasíu og systkina hennar voru ástrík og vildu börnum sínum allt það besta. Þær systurnar kunnu allar ensku og rússnesku og voru vel menntaðar. Þær þóttu þó barnalegar og líklega má rekja ástæðu þess til þeirrar einangrunar frá umheiminum sem þær bjuggu við.

Samkvæmt gamalli þjóðsögu á Anastasía að hafa komist lífs af þegar fjölskylda hennar var tekin af lífi í Síberíu 1918. Gimsteinar sem áttu að hafa verið saumaðir í kjól voru sagðir hafa bjargað henni. Hún hafi síðan komist undan. Þess má geta að nokkrar konur hafa gefið sig fram í gegnum tíðina og sagst vera Anastasía en í dag hefur þó dauði hennar verið staðfestur. Anastasía Níkolajevna Romanova var myrt ásamt fjölskyldu sinni þann 17. júlí 1918 af leynilögreglu bolsévika. Lík hennar fannst ekki við uppgröft 1991 né heldur lík Alexei bróður hennar. Árið 2008 komu svo nokkrir rúsnesskir vísindamenn fram og sögðu frá því að árið 2007 höfðu tvö lík fundist nálægt Jekaterínbúrg, annars vegar af ungum manni og hins vegar af ungri konu. Líkin voru talin vera af þeim systkinum Anastasíu og Aleksej. Dr. Michael Coble staðfesti svo í mars árið 2009 með DNA-rannsókn að lík allra fjögurra stórhertogaynjanna (Anastasíu og systra hennar) hefðu verið fundin og að öll keisarafjölskyldan hefði verið myrt þann 17. júlí 1918.

Anastasía í kvikmyndum

[breyta | breyta frumkóða]

Sögur um björgun Anastasíu hafa orðið til þess að ýmsar kvikmyndir hafa verið gerðar, sú fyrsta 1928 (Clothes Make the Woman) og sú nýjasta 1997. Þekktasta útgáfan er líklegast Anastasia þar sem aðalhlutverk leika Ingrid Bergman, Yul Brynner og Helen Hayes.

  • „European Royalty“. Sótt 22. apríl 2006.