Fara í innihald

Alþjóðapóstsambandið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Alþjóðapóstsambandið
Merki Alþjóðapóstsambandsins

Sérstofnun Sameinuðu þjóðanna
SkammstöfunUPU (enska)
Stofnun9. október 1874
GerðMilliríkjastofnun
HöfuðstöðvarBern, Sviss
Opinber tungumálfranska og enska
ForstjóriMasahiko Meteko
MóðurfélagAllsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og
Efnahags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna
Vefsíðawww.upu.int

Alþjóðapóstsambandið (UPU), sem er alþjóðastofnun og ein sérstofnana Sameinuðu þjóðanna, samhæfir póststefnu 192 þátttökuríkja, staðfestir alþjóðlegar reglugerðir um póstþjónustu, veitir tæknilega aðstoð og stuðlar að samstarfi um hvaðeina er lýtur að póstþjónustu.[1] Það hefur einnig umsjón með fjarvirkni og hraðpóstþjónustu. Öll aðildarríki sambandsins, samþykkja sömu skilmála fyrir framkvæmd alþjóðlegra póstskyldna.

Sambandið var stofnað með Bernarsáttmálanum árið 1874 í því skyni að að móta alþjóðlegar reglur í póstmálum en áður var einungis um að ræða tvíhliða samninga milli þjóða.[2] Höfuðstöðvar Alþjóðapóstsambandsins eru í Bern í Sviss. Opinbert tungumál sambandsins var upphaflega franska en ensku var bætt við árið 1994.

Ísland er aðili að Alþjóðapóstsambandinu, en því fylgja aðeins þær skyldur, að taka þátt í bréfaþjónustunni. Ríkjum er frjálst er að gerast aðili að samningum um verðbréf, böggla, póstávísanir, póstkröfur, gíróþjónustu, póstsparibankaþjónustu og póstáskriftir að blöðum.[3]

Mynd af minnisvarða um Alþjóðapóstsambandið í miðborg Bern í Sviss.
Minnisvarði um Alþjóðapóstsambandið í miðborg Bern í Sviss veitti merki sambandsins innblástur.
Mynd af frímerki sem Kasakstan gaf út á afmæli Alþjóðapóstsambandsins 1999.
Frímerki sem Kasakstan gaf út á afmæli Alþjóðapóstsambandsins 1999

Undanfarar nútíma póstsamgangna voru sendiboðar fyrri alda, er báru orðsendingar milli þjóðhöfðingja og valdsmanna ýmissa ríkja. Á 16. öld varð til í Evrópu vísir að kerfisbundinni, alþjóðlegri póstþjónustu með sérstökum samningi, um gagnkvæm skipti á þessu sviði, milli Austurríkis, Þýskalands, Hollands, Ítalíu, Frakklands og Spánar. Byggði þess nýja þjónusta á grundvelli tvíhliða samninga milli allra viðkomandi ríkja. Póstgjöld voru mismunandi, reiknuð í ólíkum myntum, og því oft vandkvæðum bundið að ná jafnvægi og jafnrétti milli hinna ólíku aðila. Tilkoma frímerkja árið 1840 breytti miklu en við stofnun Alþjóðapóstsambandsins giltu allt að 1200 mismunandi póstgjöld í ýmsum löndum.[4]

Að frumkvæði póstmálaráðherra Bandaríkjanna, var fyrsta alþjóðaráðstefna um póstmál haldin í París árið 1862. Þetta var fyrsta tilraunin til að fá ríki heims til að gera með sér fjölþjóðlegan samning um póstmál, grundvallaðan á sameiginlegum meginreglum. Til ráðstefnunnar komu fulltrúar 15 ríkja í Evrópu og Ameríku, þ.e. frá Austurríki, Bandaríkjunum, Belgíu, Bretlandi, Costa Rica, Danmörku, Frakklandi, Hansaborgunum, Hollandi, Ítalíu, Portúgal, Prússlandi, Sandwich-eyjum, Spáni og Sviss. Á ráðstefnunni voru samþykkt ýmis grundvallaratriði er byggja mætti á póstsamninga ríkja í milli.[5]

En þegar til lengdar lét, reyndist ókleift að koma fram þeim endurbótum á þjónustunni, sem örar framfarir í samskiptum þjóða útheimtu með samhljóða grundvallarreglum í tvíhliða samningum. Starfsmaður póststjórnar Norðurþýska ríkjasambandsins samdi árið 1868 drög að samningi um póstsamband allra þjóða, sem lögð voru fram á alþjóðaráðstefnu 22 ríkja sem haldin í Bern í boði svissnesku ríkisstjórnarinnar 9. október 1874. Ráðstefnunni lauk með undirritun fyrsta Alþjóðapóstsamningsins og tók hann gildi 1. júlí 1875. Þessar grundvallarreglur frá eru hinar sömu og í núgildandi stofnskrá og alþjóðapóstsamningi.[6]

Þessar undirstöður alþjóðapóstþjónustunnar byggja á:[7]

  1. Aðildarríkin mynda eitt póstsvæði til gagnkvæmra skipta á bréfpósti.
  2. Réttur er tryggður hverju aðildarríki til þess að senda póst um annað aðildarland.
  3. Burðargjöld eru samræmd.
  4. Burðargjöldum fyrir bréfapóst er ekki skipt milli sendi- og ákvörðunarlands. Síðar tók þetta ákvæði breytingum vegna endastöðvargjöld fyrir bréfapóst.
  5. Komið á gerðardómi til að útkljá ágreiningsmál.
  6. Sett var á stofn alþjóðaskrifstofa.
  7. Alþjóðapóstþing skyldi haldið á fimm ára fresti til þess að endurskoða samningana og ræða sameiginleg mál.

Ofangreint gilti um bréfapóst. Sérstakir samningar hafa síðan verið gerðir um aðrar greinar póstþjónustunnar. Þannig var samningur gerður árið 1878 um verðbréf 1878; um póstávísanir árið 1878; um póstböggla 1880; um áskriftir blaða 1891; um póstgíró 1920 og um póstspariþjónustu árið 1957.[8]

Eftir stofnun Sameinuðu þjóðanna voru bæði Alþjóðapóstsambandið (UPU) og Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU) gerð að undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna árið 1948. Meginmarkmið beggja þessara samtaka er að tryggja öllum jarðarbúum aðgang að ákveðinni grunnþjónustu pósts og síma.[9]

Stjórnsýsla

[breyta | breyta frumkóða]
Mynd af höfuðstöðvum Alþjóðapóstsambandsins í Bern í Sviss.
Höfuðstöðvar Alþjóðapóstsambandsins í Bern í Sviss

Innan UPU eru fjórar stofnanir sem samanstanda af þingi, stjórnsýsluráði, póstrekstrarráði og alþjóðaskrifstofu.[10] Aðalþing sambandsins („póstþing“) eru haldin á fimm ára fresti og er hlutverk þeirra að marka meginstefnu í póstmálum heimsins fram að næsta aðalþing, ásamt því að aðlaga rekstur þess að fyrirsjáanlegum kröfum komandi ára. Vægi aðildarlandanna í atkvæðagreiðslum þingsins er jafnt, sama hvort um fámenn ríki eða milljónaþjóðir er að ræða.

Framkvæmdaráð sambandsins hefur það umsjón með helstu þáttum starfseminnar og framfylgir þeim samþykktum, sem mótaðar eru á póstþingum. Í ráðinu sitja fulltrúar 40 aðildarríkja til fimm ár í senn.[11]


Ísland og alþjóðleg póstsamvinna

[breyta | breyta frumkóða]
Mynd af fjórum íslenskum frímerkjum sem komu út 9. október árið 1949, til að minnast 75 ára afmælis Alþjóðapóstsambandsins.
Fjögur íslensk frímerki sem komu út 9. október árið 1949, til að minnast 75 ára afmælis Alþjóðapóstsambandsins

Danmörku var eitt stofnríkja sambandsins og þannig féll Ísland undir stofnsamþykktirnar. Ísland varð síðan aðili Alþjóðapóstsambandinu sem fullvalda ríki árið 1919.

Jafnframt því að eiga aðild að Alþjóðapóstsambandinu, hafa ríki stofnað með sér sérstök svæðapóstsambönd til þess að bæta og þróa póstþjónustu. Ísland á aðili að Póstsambandi Norðurlanda (Nordpost) og Evrópusambandi pósts og síma (CEPT). Samvinnu Norðurlanda í póstmálum má rekja aftur til ársins 1862 og er þannig 14 árum eldri en Alþjóðapóstsambandið.[12]

Íslenska ríkið hefur sent fulltrúa á Póstþingin eru haldin á fimm ára fresti. Héðan hafa fulltrúar frá samgönguráðuneyti, Póst- og fjarskiptastofnun og Íslandspósti hf. sótt þingið.[13]

Gagnrýni á reglur UPU

[breyta | breyta frumkóða]
Íslenskur póstkassi.

Við stofnun sambandsins árið 1874 var samþykkt að alþjóðlegur póstur væri afhentur í móttökulandi endurgjaldslaust. Magn rúms og pósts hafði tilhneigingu til að vera jafnt í hverju landi og því var tap á reglunum lítið. En með fjölgun þróunarlanda í sambandinu jókst þrýstingur á að efnaðri ríki aðstoðuðu hin efnaminni við að fjármagna endanlega afhendingarkostnað. Árið 1969 var samþykkt hjá Alþjóðapóstsambandinu að efnaðri ríkin myndu greiða 70 – 80 prósent af kostnaði við innlendan póst til að fá hann afhentan í öðrum löndum, en fátækari ríkin borguðu aðeins 20-30 prósent.[14]

Þessi jöfnunarregla fór að hafa veruleg neikvæð áhrif með fjölgun póstsendinga síðari ára vegna aukinnar netverslunar, ekki síst frá Kína sem skilgreint er sem þróunarríki. Vestrænum ríkjum bar þannig að niðurgreiða póstsendingar til landsins frá Kína. Á grundvelli þessara skuldbindinga varð mikið tap á rekstri póstþjónustu vegna erlendra sendinga, meðal annars í Bandaríkjunum og einnig á Íslandi.[15][16] Rússar tóku upp innheimtu sérstakt sendingargjalds og aðrar þjóðir fylgdu í kjölfarið. Árið 2019 var reglum sambandsins því breytt.


Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Félag Sameinuðu þjóðanna. „Alþjóðapóstsambandið, UPU“. Félag Sameinuðu þjóðanna. Sótt 29. mars 2021.
  2. Hörður Halldórsson (29. október 1999). „Aðalþing Alþjóðapóstsambandsins 1999“. Morgunblaðið - 246. tölublað (29.10.1999). bls. 46. Sótt 28. mars 2021.
  3. Matthías Guðmundsson (1. desember 1976). „Ræða Matthíasar Guðmundssonar póstmeistara í Reykjavík“. Póstmannablaðið - 1. tölublað (01.12.1976). bls. 8-16. Sótt 29. mars 2021.
  4. Morgunblaðið - 196. tölublað (10.10.1974) (10. október 1974). „Alþjóðapóstsambandið 100 ára“. Morgunblaðið - Árvakur. bls. 12. Sótt 29. mars 2021.
  5. Rafn Júlíusson (1. desember 1981). „https://timarit.is/page/5355064?iabr=on“. Póstmannablaðið - 1. tölublað (01.12.1981). bls. 4-8. Sótt 29. mars 2021.
  6. Rafn Júlíusson (1. desember 1981). „https://timarit.is/page/5355064?iabr=on“. Póstmannablaðið - 1. tölublað (01.12.1981). bls. 4-8. Sótt 29. mars 2021.
  7. Rafn Júlíusson (1. desember 1981). „https://timarit.is/page/5355064?iabr=on“. Póstmannablaðið - 1. tölublað (01.12.1981). bls. 4-8. Sótt 29. mars 2021.
  8. Rafn Júlíusson (1. desember 1981). „https://timarit.is/page/5355064?iabr=on“. Póstmannablaðið - 1. tölublað (01.12.1981). bls. 4-8. Sótt 29. mars 2021.
  9. Hörður Halldórsson (29. október 1999). „Aðalþing Alþjóðapóstsambandsins 1999“. Morgunblaðið - 246. tölublað (29.10.1999). bls. 46. Sótt 28. mars 2021.
  10. Universal Postal Union (UPU) (2021). „About UPU“. Sótt 29. mars 2021.
  11. Morgunblaðið - 196. tölublað (10.10.1974) (10. október 1974). „Alþjóðapóstsambandið 100 ára“. Morgunblaðið - Árvakur. bls. 12. Sótt 29. mars 2021.
  12. Rafn Júlíusson (1. desember 1981). „https://timarit.is/page/5355064?iabr=on“. Póstmannablaðið - 1. tölublað (01.12.1981). bls. 4-8. Sótt 29. mars 2021.
  13. Hörður Halldórsson (29. október 1999). „Aðalþing Alþjóðapóstsambandsins 1999“. Morgunblaðið - 246. tölublað (29.10.1999). bls. 46. Sótt 28. mars 2021.
  14. The Economist Newspaper (8. september 2018). „The Trump administration takes on the international postal system“. The Economist Newspaper. Sótt 29. mars 2021.
  15. SA og SVÞ (29. nóvember 2018). „Efni: Umsögn um frumvarp til laga um póstþjónustu, 270. Mál“ (PDF). Samtök atvinnulífsins. Sótt 29. mars 2021.
  16. RÚV (6. apríl 2019). „Fá að rukka viðbótargjöld af pökkum frá Kína“. RÚV. Sótt 29. mars 2021.