Alois Alzheimer

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Alois Alzheimer sem Alzheimerssjúkdómurinn er kenndur við

Alois Alzheimer var fæddur í Markbreit í Suður-Þýskalandi árið 1864. Hann var strax áhugasamur um vísindi í skóla, setti fljótt stefnu á læknisnám og útskrifaðist frá læknaskóla í Berlín árið 1887.

Vísindamaðurinn varð fljótt lækninum þungur í taumi og næstu ár varði Alzheimer við rannsóknir fyrir sex binda ritverk sem hann nefndi Vefjafræðilegar rannsóknir á heilaberkinum.

Í leit að stöðu sem gæti sameinað rannsóknir og læknisþjónustu varð Alzheimer árið 1903 umsjónarmaður með rannsóknastofu fyrir Emil Kraepelin við læknaskólann í München. Þar koma Alzheimer á fót nýrri heilarannsóknastofu.

Eftir að hafa sent frá sér fjölda rita og greina um heilann og sjúkdóma sem herjuðu á hann, flutti Alzheimer fyrirlestur í nóvember 1906 sem gerði hann frægan. Í fyrirlestrinum skilgreindi Alzheimer óvenjulegan sjúkdóm í heilaberki sem herjaði á konu á fimmtugsaldri, Auguste D., og hafði valdið henni minnisleysi, misáttun, skynvillu og að lokum dregið hana til bana aðeins 55 ára. Alzheimer kynntist Auguste D. sem sjúklingi strax eftir að hann kom til Munchen og hafði nú einnig rannsakað heila hennar eftir lát hennar. Krufning sýndi margskonar óeðlilegar breytingar á heilanum. Heilabörkurinn var þynnri en eðlilegt var, hrörnun ef þeim tagi sem aðeins sést hjá miklu eldra fólki var mikil, elliskellur og "Neurofibrillary Tangle“ (óreiða sýnileg í smásjá í einstökum taugafrumunum) voru í heilanum sem aldrei fyrr höfðu verið rannsakaðar. Alzheimerssjúkdómurinn var seinna við hann kenndur.

Alzheimer lést aðeins 51 ára árið 1915 af hjartaþelsbólgu í kjölfar sýkingar sem honum tókst ekki að jafna sig af.

Enn þann daginn í dag byggja greiningaraðferðir Alzheimerssjúkdómsins á sömu grundvallaratriðum og Alzheimer kynnti í fyrirlestri sínum í nóvember 1906.