Alexander De Croo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Alexander De Croo
Informal meeting of ministers responsible for development (FAC). Arrivals Alexander De Croo (36766610160) (cropped2).jpg
Forsætisráðherra Belgíu
Núverandi
Tók við embætti
1. október 2020
ÞjóðhöfðingiFilippus
ForveriSophie Wilmès
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. nóvember 1975 (1975-11-03) (47 ára)
Vilvoorde, Belgíu
ÞjóðerniBelgískur
StjórnmálaflokkurOpnir flæmskir frjálslyndismenn og lýðræðissinnar
MakiAnnik Penders
Börn2
HáskóliFríháskólinn í Brussel (BS)
Northwestern-háskóli (MBA)

Alexander De Croo (f. 3. nóvember 1975) er belgískur stjórnmálamaður og núverandi forsætisráðherra Belgíu. Hann er meðlimur í stjórnmálaflokknum Opnum flæmskum frjálslyndismönnum og lýðræðissinnum (VLD) og tók við embætti forsætisráðherra í byrjun október 2020, en þá höfðu stjórnarmyndunarviðræður staðið í um 500 daga.[1]

Hann er sonur stjórnmálamannsins Hermans De Croo og er menntaður við Fríháskólann í Brussel og við Kellogg-stjórnunarskólann í Northwestern-háskóla. Hann vann sem stjórnunarráðgjafi að loknu námi.

De Croo hóf stjórnmálaferil sinn í júní árið 2009 með misheppnuðu framboði í kosningum til Evrópuþingsins. Sex mánuðum síðar var hann kjörinn forseti VLD í stað Guy Verhofstadt. Hann varð þjóðkunnur þegar hann sprengdi stjórn Yves Leterme með því að draga VLD úr stjórnarsamstarfinu vegna óánægju með aðgerðaleysi í fyrirhugaðri skiptingu kjördæmisins Brussel-Halle-Vilvoorde. Með þessu hóf De Croo lengstu stjórnarkreppu í sögu Belgíu.

Í október 2012 var De Croo kjörinn sveitastjóri Brakel og varð síðan varaforsætisráðherra og lífeyrisráðherra í ríkisstjórn Elio Di Rupo. Hann sat áfram sem varaforsætisráðherra í ríkisstjórnum Charles Michel og Sophie Wilmès og var jafnframt samvinnu- og þróunarráðherra. Árið 2018 tók hann við embætti fjármálaráðherra.

Eftir þingkosningar árið 2019 hófst önnur löng stjórnarkreppa en í september 2020 tókst þeim De Croo og Paul Magnette að mynda stjórn. De Croo tók við af Sophie Wilmès sem forsætisráðherra í byrjun október.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Atli Ísleifsson (september 2020). „Ná saman um nýja stjórn um 500 dögum eftir kosningar“. Vísir. Sótt 15. október 2020.


Fyrirrennari:
Sophie Wilmès
Forsætisráðherra Belgíu
(1. október 2020 – )
Eftirmaður:
Enn í embætti


  Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum og Belgíu er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.