Aladdín

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Galdramaðurinn lokar Aladdín í hellinum. Myndskreyting eftir Albert Robida.

Aladdín (arabíska: علاء الدين‎‎, ʻAlāʼ ad-Dīn) er þjóðsaga sem er talin vera af miðausturlenskum uppruna þótt fátt sé í raun vitað um uppruna hennar annað en að Antoine Galland sem þýddi sagnabálkinn Þúsund og eina nótt bætti henni við ritið fyrir frönsku útgáfuna 1710. Hann sagðist hafa heyrt hana frá maróníta frá Sýrlandi í París. Engir upprunalegir textar með sögunni á arabísku hafa fundist utan tveir sem taldir eru falsanir, þ.e. þýðingar úr frönsku á arabísku gerðar eftir útgáfu Gallands.

Sagan segir frá fátækum dreng í Kína sem galdramaður frá Norður-Afríku ginnir til að aðstoða sig við að ná í töfralampa úr helli. Í lampanum er djinni sem gerir Aladdín ríkan og voldugan. Galdramaðurinn svíkur þá lampann út úr eiginkonu Aladdíns og flytur höll hans og alla íbúa hennar til Norður-Afríku. Aladdín kemst þangað með hjálp annars djinna sem býr í hring sem hann ber, nær lampanum og drepur galdramanninn.

Aladdín og töfralampinn er ein þekktasta sagan úr Þúsund og einni nótt. Sagan var útfærð sem pantómíma af John O'Keefe í Bretlandi 1788 og hélt vinsældum sínum þar í 200 ár. Þar kemur „móðir Aladdíns“ fyrir og ýmsir hlutir úr öðrum sögum Þúsund og einnar nætur. Árið 1906 kom út vinsæll söngleikur eftir James T. Tanner og W. H. Risque, Hinn nýi Alladín. Aladdín kemur fyrir í fyrstu teiknimyndinni í fullri lengd, Ævintýri Achmeds prins, frá 1926. Þekktasta teiknimyndaútgáfan er líklega Disney-myndin Aladdín frá 1992.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]