Fara í innihald

Abelsverðlaunin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Abelsverðlaunin (eða Abelverðlaunin) eru verðlaun sem Norska vísindaakademían veitir til stærðfræðings sem þykir hafa skarað fram úr á alþjóðavettvangi. Verðlaunin eiga að stuðla að aukinni umfjöllun fjölmiðla um stærðfræði og gefa þannig ungum stærðfræðingum aukinn metnað. Einnig eiga þau að varðveita minningu Niels Henrik Abels sem dó ungur en náði þrátt fyrir það að skilja eftir sig ýmsar grundvallarkenningar í stærðfræði. Verðlaunin voru veitt í fyrsta skipti í júní árið 2003 og hafa verið veitt árlega síðan.

Tildrög verðlaunanna[breyta | breyta frumkóða]

Um hálfri öld eftir að Abel lést kom fram sú hugmynd að stofna til verðlauna í hans nafni. Sá sem átti þá hugmynd var norski stærðfræðingurinn Sophus Lie, og árið 1898 fór hann út í það að safna styrkjum til að stofna til slíkra verðlauna sem yrðu veitt á fimm ára fresti til stærðfræðings sem skarað hefði fram úr í hreinni stærðfræði á alþjóðavettvangi. Hann var virtur og gekk ágætlega að safna styrkjum. Það kom þó fyrir ekki því hann lést ári síðar og þar sem flestir styrkirnir sem hann hafði fengið voru á hans nafni, var ekki hægt að nýta þá eftir dauða hans.

Umræðan vaknaði aftur 1902, 100 árum eftir fæðingu Abels, en þá lýsti Oskar II Svíakonungur (en á þessum tíma réði Svíþjóð yfir Noregi) yfir vilja til að stofna slík verðlaun. Í kjölfarið fóru stærðfræðingarnir Carl Størmer og Ludvig Sylow í samstarfi við norsku vísindaakadímuna að vinna að gerð leiðbeininga og reglna fyrir þannig verðlaun. Þetta fór þó út um þúfur árið 1905 þegar Noregur og Svíþjóð slitu ríkissambandi sínu, enda hafði sjálfstæður Noregur ekki fjárhagslega burði til að setja á stofn svona verðlaun.

Ekkert gerðist næstu öldina og það var ekki fyrr en árið 2000 sem hugmyndin kom upp aftur. Það voru Arild Stubhaug, sem skrifað hefur ævisögu Abel, og Tormod Hermansen sem ýttu umræðunni aftur af stað í samvinnu við stærðfræðideild Háskólans í Ósló og norska menntamálaráðuneytið. Skipuð var nefnd í mars 2001 til að vinna í málinu og lofaði bæði norska ríkistjórnin og alþjóðlegu stærðfræðisamtökin (IMU) styrkjum. Þann 23. maí þetta sama ár skilaði nefndin forstætisráðherra Noregs svo tillögu um framkvæmd verðlaunanna.

Þrem mánuðum seinna tilkynnti svo Jens Stoltenberg þáverandi forsætisráðherra Noregs að norska ríkistjórnin myndi stofna til alþjóðlegra stærðfræðiverðlauna í nafni Abels. Jafnframt lofaði hann að ríkið legði fram jafnvirði um tveggja miljarða íslenskra króna í sjóð tengdan verðlaununum, en Norska vísindaakademían skyldi úthluta þeim. Í júní 2003 voru verðlaunin veitt í fyrsta skipti og hafa þau verið veitt árlega síðan, við hátíðlega athöfn úr hendi Noregskonugs.

Verðlaunahafar[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]