Fara í innihald

Þorgeirsboli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorgeirsboli nefnist þjóðsagnatengdur draugur og illvígur sem „Galdra-Geiri“ (Þorgeir Stefánsson, fæddur um 1716, látinn 1802) vakti upp með bróður sínum Kvæða-Stefáni og móðurbróður þeirra, Andrési Þorgeirssyni (f. 1699) nálægt miðri 18. öld, eftir því sem þjóðsögur herma.

Draugurinn vakinn upp

[breyta | breyta frumkóða]

Þorgeir er sagður hafa ákveðið að vekja drauginn upp til þess að senda hann til konu sem vildi ekki ganga að eiga hann. Fékk hann sér nýborinn nautkálf sem hann skar og fló aftur á malir og vakti hann svo upp með fjölkynngi. Í sárið, þar sem kálfurinn var fleginn, létu þeir „af átta hlutum, af lofti og af fugli, af manni og af hundi, af ketti og af mús og enn af sjókvikindum tveimur, svo níu voru náttúrur bola með nautseðlinu.“ Átti boli því að geta brugðið sér í allra þessara kvikinda líki og farið jafnt „loft sem lög og láð og komið fyrir sjónir í öllum þeim myndum sem í honum voru náttúrur og eftir því sem honum þóknaðist.“ Loks steypti Þorgeir sigurkufli af nýfæddu barni yfir drauginn, og átti hann þannig að verða svo gott sem ósigrandi. Aðrir segja að Þorgeir hafi notað flegið kálfshöfuð eða klauf af nauti, kveðið yfir galdra og magnað „með fjandans krafti“.

Draugagangur af völdum Þorgeirsbola

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að hafa látið drauginn gera út af við konuna sem ekki vildi eiga hann, hafði Þorgeir bola sér til fulltingis þegar honum fannst hann eiga sökótt við aðra, sem kom ekki sjaldan fyrir. Þorgeir kvæntist svo og hóf búskap á Végeirsstöðum í Fnjóskadal og seinna að Leifshúsum á Svalbarðsströnd, og þótti heimamönnum í báðum sveitum sem reimleikar fylgdu honum og börnum hans. Þóttust menn heyra í bolanum svo dimmt baul að jörð nötraði, og þegar hann sást þótti mönnum höfuðið vera flegið og blóðrisa og skrokkurinn allur líka, og húðin dragast á eftir honum svo að holdrosinn sneri út. Eftir því sem árin liðu þótti atgangurinn minnka, svo að á efri árum er Þorgeir sagður hafa magnað drauginn upp að nýju. Var bolanum kennt um veikindi, meiðsl og voveiflegan dauða fólks og búfénaðar. Þótti það jafnan fyrirboði válegra tíðinda þegar sást til Þorgeirsbola, en einnig var hann sagður fylgja ættmönnum Þorgeirs og afkomendum og gera vart við sig á bæjum áður en þá bar að garði. Þykjast sumir afkomendur hans hafa orðið varir við bola svo seint sem á tuttugustu öld.

Sagt var að tveir aðrir draugar, Húsavíkur-Lalli og Eyjafjarðar-Skotta (sumir segja Hleiðrargarðs-Skotta) fylgdu Þorgeirsbola oft, og sætu þau þá á húðinni sem hann dró þá á eftir sér eins og sleða.