Þorbjörn (fjall)
Þorbjörn | |
---|---|
Hæð | 243 metri |
Land | Ísland |
Sveitarfélag | Grindavíkurbær |
Hnit | 63°51′57″N 22°26′12″V / 63.865811°N 22.436617°V |
breyta upplýsingum |
Þorbjörn eða Þorbjarnarfell er fjall rétt norður af Grindavík sem varð til á ísöldinni við gos undir jökl. Það er úr móbergi og er 243 metra hátt. Fjallið er ekki eldfjall, heldur stendur á gosbelti.
Þjófagjá nefnist sprunga í miðju fellinu. Norðvestan við Þorbjarnarfell er jarðhiti, þar er Bláa lónið og Svartsengi. Í Norðurhlíð fjallsins er skógrækt og nefnist þar Selskógur. Efst á Þorbirni eru möstur. Stóra mastrið, ca, 40 m hátt, er frá Flugþjónustunni og önnur frá Símanum. Nýjasta mastrið, sem var reist árið 2009, þjónar gsm-sambandi Símans. Auk þess er þar endurvarp frá Útvarpinu.
Þann 26. janúar árið 2020 var óvissustig Almannavarna virkjað í grennd við fjallið. Óvenju mikið landris hafði mælst á Reykjanesskaga rétt vestan við það dagana á undan og nam risið um 3 til 4 mm á dag og var mesti landrishraði sem mælst hefur á svæðinu síðan mælingar hófust. Landrisið var talið vísbending um kvikusöfnun á nokkura kílómetra dýpi.
Síðast gaus á þessu svæði á árunum 1211-1240 (Reykjaneseldar), en þá gekk yfir goshrina sem myndaði miklar hraunbreiður.
Þjófagjá
[breyta | breyta frumkóða]Gömul þjóðsaga tengist gjánni. Samkvæmt henni áttu fimmtán þjófar að hafa hafst þar við og hafa lagst á fé Grindvíkinga. Og endar þannig:
- "Eigi sáu byggðamenn færi á að vinna þá, fyrr en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum, norðan undir fjallinu. Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá snéri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór, eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir í nema nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.Nú þustu byggðamenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir, þar sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonur varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom" [1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Ferlir - Þorbjarnarfell
- Nat.is Þorbjarnarfell Geymt 22 ágúst 2019 í Wayback Machine
- Haukur Björnsson: Myndun Þorbjarnarfells. BS ritgerð. Leiðbeinandi Ármann Höskuldsson. Jarðvísindadeild Háskóli Íslands 2015
- Veðurstofa Íslands: Átta þúsund skjálftar síðan í lok janúar á Reykjanesskaganum. (10.4.2020)