Þokkagyðjur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þokkagyðjurnar þrjár, höggmynd eftir Jean-Jacques Pradier frá 1831.

Þokkagyðjurnar (Karítur, á latínu Gratiae) voru grískar gyðjur sem venjulega voru í fylgd Afródítu, en þær klæða hana og skrýða.

Reyndar eru þær líka í fylgd með öðrum guðum, því að allt, sem er hrífandi, fagurt og yndislegt, hvort heldur það er andlegs eðlis eða áþreifanlegt, kemur frá þeim og þróast fyrir þeirra mátt. Þokkagyðjurnar eru hinar fríðustu ásýndum, blómlegar og algervar að allri líkamsfegurð. Einkunnir þeirra eru ýmist hljóðfæri eða myrtusviðargrein, rósir og teningar og fleira þess háttar. Þokkagyðjurnar eru venjulega taldar þrjár: Aglaia (= hátíðaljómi): Evfrosýne (= hátíðagleði) og Þalía (= fagnaðarblómi).

Þokkagyðjurnar hafa einnig verið nefndar þokkadísir á íslensku. Þær eru venjulega taldar dætur Seifs og Evrýnome (þ.e. hinnar víttríkjandi) Ókeansdóttur.

Tónlist og mælskulist, skáldskapur og myndlist helgast og prýðast af þokkagyðjunum. Þær efla visku, karlmennsku, hjálpsemi, þakklæti og í stuttu máli allar göfugar dyggðir, sem prýða manninn og afla honum góðs þokka hjá meðbræðrum sínum.