Þórir þursasprengir
Þórir þursasprengir var landnámsmaður í Eyjafirði. Hann nam land í Öxnadal og segir í Landnámabók að hann hafi numið Öxnadal allan en nokkrum línum neðar segir að Auðólfur hafi numið land niður frá Þverá til Bægisár, svo að Þórir hefur líklega numið allan dalinn að norðvestan en aðeins niður til Þverár að suðaustan.
Ætt Þóris er ekki þekkt en hann var fæddur í Ömð á Hálogalandi, lenti í deilum við Hákon Grjótgarðsson jarl og fór þess vegna til Íslands, að því er segir í Landnámu. Þar er sagt að hann hafi búið á Vatnsá. Það bæjarnafn er nú ekki til en gömul munnmæli voru um það Öxnadal að Hraun hefði áður heitið Vatnsá. Sonur Þóris var Steinröður rammi „er mörgum manni vann bót, þeim er aðrar meinvættir gerðu mein“. Í Landnámu er minnst á viðureign hans við galdrakerlinguna Geirlaugu.