Fara í innihald

Ósýnilegi bleiki einhyrningurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ósýnilegi bleiki einhyrningurinn er gyðja háðsádeilutrúarbragða og birtist í formi einhyrnings sem er hvortveggja ósýnileg og bleik. Elstu gögn um goð þetta er hægt að rekja aftur til alt.atheism fréttahópsins á Usenet. Svo vitnað sé í spurt og svarað hluta alt.atheism:

ÓBE er Ósýnilegi bleiki einhyrningurinn (blessaðir séu hennar heilögu hófar).
[...]
Eins og flestar gyðjur er hún ósýnileg, og afar hæpið að hún sé til. Samt sem áður er deilt hart um litaraft hennar, lögun og stærð, auk annarra eiginleika tilvistarleysis hennar. Hún skelfur af reiði gagnvart eingyðistrúarmönnum, og treður þá að sögn undir heilögum hófum sínum.

Trúaðir segja að líkt og í öðrum trúarbrögðum sé trúin á Ósýnilega bleika einhyrninginn byggð á vísindum og trú. Vísindum þar sem „hún hljóti að vera ósýnileg, þar sem við sjáum hana ekki“ og trú þar sem „við vitum í hjarta okkar að Ósýnilegi bleiki einhyrningurinn er til“. Þessum rökum er ætlað að vera skopstæling á guðfræðilegum rökum sem liggja að baki margra annarra trúarbragða.

Hugmyndin er að þar sem Einhyrningurinn er ósýnileg er ógerlegt að sanna að hún sé ekki til og ef engin leið er að sanna tilvist hennar, hvernig vitum við þá að hún er bleik og með eitt horn?

Hugmyndin um bleika einhyrninginn gerir einnig at í mótsögnum innan ýmissa trúarbragða. Ekkert getur bæði verið ósýnilegt og haft ákveðinn lit á sama tíma, og má bera það saman við hugmyndir um alvitran eða almáttugan guð, hugmyndir sem hafa verið gagnrýndar fyrir að vera í mótsögn við sjálfar sig. Auk þess hafa gagnrýnendur trúarbragða leitað uppi og fundið kafla í Biblíunni eða Kóraninum sem þeir telja vera í mótsögn við aðra kafla í sömu ritum.

Nafni Ósýnilega bleika einhyrningsins fylgja oft setningar líkt og „Blessaðir séu heilagir hófar hennar“, „Friður sé með henni“, „Megi skuggi aldrei falla á hófa hennar“, „Dýrð sé bleiku faxi hennar“ o.s.frv. Þessum setningum er ætlað að draga dár að blessunum múslima þegar þeir tala um Múhammeð, spámann sinn.

Skylt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]