Ævintýri
Ævintýri er þjóðsaga sem fjallar gjarnan um yfirnáttúrulegar verur á borð við álfa, tröll, dverga og risa og önnur yfirnáttúrleg fyrirbæri eins og töfra og álög. Ævintýri hefjast stundum á formúlunni „einu sinni var“, sem vísar til þess að sögutími er einhvern tíma í óljósri fortíð. Þekkt ævintýri eru meðal annars Öskubuska, Þyrnirós og Fríða og dýrið.
Ævintýri hafa verið til sem munnmælasögur frá örófi alda en á 17. öld urðu þau að bókmenntagrein þegar farið var að skrifa þau niður og endurskrifa þau. Á 19. öld var farið að safna ævintýrum og öðrum þjóðsögum með skipulegum hætti um allan heim. Grimmsbræður gerðu ævintýri að sérstökum flokki þjóðsagna, aðgreindan frá sögnum og goðsögum. Margir rithöfundar hafa endursagt ævintýri úr munnmælum og jafnvel samið ný, eins og danski höfundurinn Hans Christian Andersen. Ævintýri eru mikilvæg uppspretta frásagna sem birtast í alls konar barnaefni í okkar samtíma, bæði bókmenntum og kvikmyndum. Fantasíur sækja líka efnivið til ævintýra.