Ásgrímur Jónsson (ábóti í Þingeyraklaustri)
Ásgrímur Jónsson (d. 1495) var ábóti í Þingeyraklaustri frá 1488. Hann hafði áður verið munkur í klaustrinu en tók við þegar Jón Gamlason ábóti lést háaldraður eftir nærri hálfa öld í embætti.
Ásgrímur var sonur Jóns Jónssonar búlands sýslumanns á Móbergi í Langadal en Jóns var Ingigerður Þorsteinsdóttir, sem var dóttir Grundar-Helgu og hálfsystir Björns Jórsalafara, að minnsta kosti samkvæmt dómi, en afkomendur hennar héldu því fram að svo væri ekki, heldur hefði móðir hennar verið fátæk, óþekkt kona. En á þessum skyldleika byggðist málarekstur Gottskálks biskups gegn Jóni Sigmundssyni lögmanni því Björg Þorvaldsdóttir, seinni kona Jóns, var bróðurdóttir Ásgríms. Móðir Ásgríms er óþekkt en systkini hans voru Þorvaldur búland lögréttumaður á Móbergi og Agnes abbadís í Reynistaðarklaustri.
Ásgrímur lést 1495 og tók þá bróðursonur hans, Jón Þorvaldsson prestur á Höskuldsstöðum, við umráðum klaustursins en var þó ekki vígður ábóti fyrr en um 1500.