Ásgrímur Öndóttsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Ásgrimur Öndóttsson var ásamt Ásmundi bróður sínum landnámsmaður í Kræklingahlíð í Eyjafirði.

Faðir þeirra bræðra var Öndóttur kráka Erlingsson, sem bjó í Hvinisfirði á Ögðum í Noregi, en móðir þeirra hét Signý Sighvatsdóttir. Helga systir Öndótts var seinni kona Björns, föður Eyvindar föður Helga magra og hét sonur þeirra Þrándur. Björn dvaldi hjá Öndótti á vetrum en var í víking á sumrum. Hann andaðist á Ögðum og voru synir hans þá á Bretlandseyjum. Hersir sem Grímur hét reyndi að sölsa undir sig arfinn eftir Björn í nafni konungs, en Öndóttur hélt honum fyrir Þránd systurson sinn. Þrándur frétti lát föður síns til Suðureyja og eftir því sem segir í Landnámu brá hann hart við og sigldi svo hratt til Noregs að eftir það var hann kallaður Þrándur mjögsiglandi. Gat hann náð arfinum og fór síðan til Íslands.

Grímur hersir vó þá Öndótt af því að hann hafði haldið arfinum fyrir honum en sömu nótt bar Signý ekkja hans allt lausafé sitt á skip og fór með syni þeirra til föður síns og sendi þá síðan til fóstra síns. Þeir vildu þó ekki vera þar og héldu í heimabyggð sína og leyndust þar um veturinn. Sumarið eftir fóru þeir að Grími hersi, brenndu hann inni og þvinguðu Auðun jarl Haraldar konungs, sem þar var gestkomandi, til að greiða sér bætur fyrir Öndótt.

Síðan fóru þeir bræður í Súrnadal og flæktust þar inn í deilumál. Ásgrímur særðist illa og var talinn dauður en komst til skógar og greru sár hans þar. En sama sumar fór Ásmundur til Íslands og vissi ekki að bróðir hans var á lífi. Hann kom í Eyjafjörð til Helga magra frænda síns, sem gaf honum Kræklingahlíð og bjó hann á Glerá hinni syðri. Ásgrímur kom seinna til Íslands og eignaðist Kræklingahlíð með bróður sinum og bjó á Glerá hinni nyrðri. Kona hans var Geirhildur Eiríksdóttir og sonur þeirra Elliða-Grímur, faðir Ásgríms Elliða-Grímssonar.