Fara í innihald

Álfur egðski

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Álfur egðski var landnámsmaður í Ölfusi og bjó á Núpum. Hann var frá Ögðum í Noregi eins og viðurnefni hans gefur til kynna og hraktist þaðan undan Haraldi hárfagra.

Álfur kom til Íslands og lenti skipi sínu í Álfsósi. Það nafn er nú týnt en kann að hafa verið mynni Ölfusár og raunar hefur sú kenning komið fram að sveitarheitið Ölfus sé afbökun úr Álfsós. Álfur nam Ölfus allt vestanvert fyrir utan Varmá og bjó á Gnúpum (Núpum). Bróðursonur Álfs, Þorgrímur Grímólfsson, kom til landsins með honum. Landnáma segir að móðir hans hafi verið Kormlöð dóttir Kjarvals Írakonungs. Álfur var barnlaus og tók Þorgrímur arf eftir hann. Sonur Þorgríms var Eyvindur, faðir Þórodds spaka, goða í Ölfusi, föður Skafta lögsögumanns.

  • „Landnámabók. Af snerpa.is“.