Fara í innihald

Álft

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Álft


Ástand stofns
Ástand stofns: Í lítilli hættu [1]
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Ættbálkur: Gásfuglar (Anseriformes)
Ætt: Andaætt (Anatidae)
Ættkvísl: Svanir (Cygnus)
Tegund:
C. cygnus

Tvínefni
Cygnus cygnus
(Linnaeus, 1758)
Cygnus cygnus

Álft eða svanur (fræðiheiti: Cygnus cygnus) er stór fugl af andaætt og stærsti fugl Íslands. Hún er sundönd og er alfriðuð enda stofninn ekki stór, þó fer álftum fjölgandi hér á landi.

Útbreiðsla[breyta | breyta frumkóða]

Íslenskar álftir dvelja flestar á Bretlandseyjum yfir vetrarmánuðina en kringum tíundi hluti hefur vetursetu á Íslandi aðallega á Suður-og Suðvesturlandi og Mývatni. Á Reykjavíkurtjörn eru einnig venjulega nokkrir tugir fugla. Álftin er með fyrstu farfuglum, þær fyrstu sjást yfirleitt á Suðausturlandi í byrjun mars. Talning álfta fer fram á Bretlandseyjum og stofnmat árið 2005 sýndi að stofninn hafði stækkað úr um 12.000 fuglar árið 1980 í um 25.000 fugla 2005. Mest eru þetta geldfuglar en talið er að um 2.000 pör, eða 4.000 fuglar verpi hér á landi á hverju ári. [2]

Einkenni[breyta | breyta frumkóða]

Lengd: 118 - 132 sm | Þyngd: 8 - 12 kg | Vænghaf: 2,2 – 2,4 m

Álftir eru mjög áberandi fuglar enda alhvítar með svarta fætur og dökk augu. Kynin eru eins í útliti en karlfuglinn er þó stærri og þyngri. Goggurinn er svartur með gulri rót, langan, beinan háls, flatan búk og afturhallandi stél á sundi. Flugið er kröftugt með hægum og sterklegum vængjatökum. Hún teygir hálsinn beint fram á flugi en heldur honum lóðréttum á sundi. Til að hefja sig til flugs hleypur hún á vatninu enda mikill og þungur fugl.

Ungarnir eru ljósgrábrúnir og nef ljósrautt með dökkum oddi. Á sumrin geta fuglarnir verið meira eða minna gráir eða ryðrauðir af mýrarrauða úr vatninu. Röddin er líkust hljómmiklum lúðrablæstri. Síðsumars fella fuglarnir fjaðrirnar og eru þá ófleygir.

Geldfuglar, far-og fellihópar safnast saman á ýmsum stöðum á landinu en sá stærstur þeirra er í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu en þar safnast oft meira en þriðjung alls íslenska stofnsins og er það mikilvægasti álftasamkomustaður í heimi.

Fæða[breyta | breyta frumkóða]

Álftir eru jurtaætur sem nærast mest á vatna- og mýrargróðri ásamt því sem þær sækja í tún og eru taldar miklir skaðvaldar af landeigendum. Þær eru hálfkafar og þá oft með afturendann upp í loft þegar þær leita ætis neðan vatnsyfirborðs.

Varp[breyta | breyta frumkóða]

Álftin er mjög félagslynd og er venjulega í hópum og þá auðfundnar, nema á varptíma, þá verja hjónin óðal sitt. Álftin verpir um land allt bæði á láglendi og á hálendi og heldur sig við vötn, tjarnir, í mýrum og flóum. Þær gera sér háa dyngju með djúpri skál til að verpa í. Dyngjan er úr ýmsum gróðri sem þær finna í nágrenni við hreiðrið. Eggin eru oftast fjögur til sex. Varp hefst missnemma og fer það eftir því hvort álftirnar eru á láglendi eða hálendi.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. BirdLife International (2012). „Cygnus cygnus“. Rauði listi IUCN yfir tegundir í hættu. 2012.2. Sótt 28. október 2012.
  2. „Erindi Búnaðarsambands Skagfirðinga - Álftir“. Bændasamtök Íslands. Sótt 17. október 2012.[óvirkur tengill]
  Þessi fuglagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.