Álfheiður Kjartansdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Álfheiður Kjartansdóttir (8. október 192528. nóvember 1997) var íslenskur þýðandi og blaðamaður. Hún þýddi fjölda barnabóka, Kvikmyndahandbókina og bækur eftir jafn ólíka höfunda og Per Anders Fogelström (Sumarið með Móniku) , Hammond Innes, Mary Stewart og Marilyn French, en einnig kafla í bókinni Perestrojka: ný hugsun, ný von eftir Míkhaíl Sergejevítsj Gorbatsjov.

Álfheiður var dóttir Kjartans Ólafssonar frá Hafnarfirði, lögregluþjóns og lengi bæjarfulltrúa þar, og konu hans Sigrúnar Guðmundsdóttur. Eldra barn þeirra var Magnús, ritstjóri og ráðherra. Álfheiður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1945 og innritaðist í norrænu þá um haustið. Hún lauk prófi í forspjallsvísindum um vorið en hélt þá til náms til Kaupmannahafnar. Þar giftist hún 2. apríl 1947 fyrri manni sínum, Guðna Guðjónssyni grasafræðingi. Hann lést í desember 1948. Álfheiður giftist síðan aftur 27. nóvember 1954 seinni manni sínum Jóhannesi Jóhannessyni listmálara og gullsmið. Árið 1977 hóf Álfheiður nám í málvísindum og lauk BA gráðu í þeim frá Háskóla Islands 1983.

Þegar í menntaskóla þýddi Álfheiður sína fyrstu bók, en þýðingar gerði hún síðar að ævistarfi, fyrst með verslunarstörfum, blaðamennsku og barnauppeldi, en síðar varð það hennar aðalstarf. Álfheiður var félagi í Rithöfundasambandi íslands.

  Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.