Ágrip af Noregskonungasögum
Ágrip af Noregskonungasögum, eða Ágrip, er konungasaga sem gefur stutt yfirlit um sögu Noregskonunga frá því um 880 til 1136. Sagan er rituð af óþekktum höfundi um 1190, líklega í Niðarósi, og er elsta konungasagan sem varðveist hefur.
Ágrip er varðveitt í einu íslensku skinnhandriti frá árabilinu 1200–1225, sem er nú í Árnasafni í Kaupmannahöfn, undir nafninu AM 325 II 4to. Handritið er ekki heilt, og vantar bæði upphaf og endi. Árni Magnússon komst yfir það árið 1707 og gerði sér strax grein fyrir að það væri einstæður gripur (rarissimum). Samkvæmt upplýsingum sem hann aflaði bjuggu fyrri eigendur þess á Hvalfjarðarströnd og í Kjós.
Frásögnin hefst með fráfalli Hálfdanar svarta og endar um það leyti sem Ingi krypplingur tók við völdum, og nær því u.þ.b. yfir árabilið 880–1136. Sagan hefur líklega hafist á ævi Hálfdanar svarta, föður Haralds hárfagra og er talið að frásögnin hafi endað með falli birkibeinans Eysteins meylu árið 1177, um það leyti sem Sverrir konungur komst til valda. Hugsanlegt er að Sverrir konungur hafi átt frumkvæðið að verkinu til þess að setja sín eigin afrek í stærra samhengi.
Höfundurinn hefur notað bæði rit á latínu og norrænu, en einnig munnlegar heimildir, einkum úr Þrándheimi, og hann hefur verið vel að sér í norskum lögum. Sagan er frekar klaufalega samin.
Ágrip er oft borið saman við tvö önnur yfirlitsrit um sögu Noregs frá svipuðum tíma, Historia Norvegiæ og Söguna um hina fornu konunga Noregs, eftir Theodoricus monachus. Bæði þessi rit eru á latínu. Aftur á móti var Ágrip brautryðjandaverk að því leyti að það var skrifað á því máli sem þá var talað í Noregi og á Íslandi.
Útgáfur
[breyta | breyta frumkóða]- Bjarni Einarsson (útg.): Ágrip af Noregskonunga sögum : Fagrskinna – Noregs konunga tal. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík 1984. — Íslenzk fornrit XXIX.
- Driscoll, M. J. (útg. og þýð.): Ágrip af Noregskonungasögum, London 1995. Viking Society for Northern Research, Text Series 10. — 2. útg. 2008.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Guðrún Nordal o.fl. (ritstj.): Íslensk bókmenntasaga I, Reykjavík 1992:362–364. Mál og menning.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Ågrip“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 15. ágúst 2010.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Stutt ágrip af Noregs konúnga sögum — Fornmanna sögur, 10. bindi, Kaupmannahöfn 1835. — Google bækur.
- AM 325 II 4to — Upplýsingar um handritið, af handrit.is.
- Menota Geymt 14 júní 2008 í Wayback Machine — Safn norrænna miðaldatexta – vefsíða.