Hæstiréttur Bandaríkjanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Ríkisinnsigli dómsvalds Bandaríkjanna

Hæstiréttur Bandaríkjanna er æðsta dómsstig Bandaríkjanna. Hæstarétt Bandaríkjanna skipa níu hæstaréttardómarar og gegnir einn þeirra um leið embætti forseta hæstaréttar. Í samráði við og með staðfestingu öldungadeildarinnar skipar Forseti Bandaríkjanna hæstaréttardómara. Hæstaréttardómarar eru æviráðnir, að viðhöfðu virðulegu hátterni samkvæmt þriðju grein stjórnarskrárinnar[1], og halda þeir embætti sínu til andláts, þar til þeir segja af sér, setjast í helgan stein eða hljóta sakfellingu vegna formlegrar ákæru um embættisafglöp fyrir landsdómi (e. impeachment). Hæstiréttur Bandaríkjanna dæmir fyrst og fremst í málum áfrýjuðum til hans af lægri dómsstigum í Bandaríkjunum en til eru einstaka mál þess eðlis að fyrsta dómsstig þeirra er hjá honum. Með óformlegum hætti er oft talað um hæstarétt Bandaríkjanna sem háréttinn (e. High Court) og/eða skótus (e. SCOTUS), en hið síðarnefnda er skammstöfun enska heiti réttarins (e. Supreme Court of the United States), borið fram eins og samsetning bókstafanna gefur til kynna. Húsakynni hæstaréttar Bandaríkjanna eru í Washington.

Saga[breyta]

Hæstiréttur Bandaríkjanna er eini dómstólinn sem kveðið er á um í stjórnarskrá Bandaríkjanna. Upphaflega átti hæstirétturinn að standa saman af sex hæstaréttardómurum en hafa þeir verið níu talsins nær alla tíð frá upphafi hans. Hæstiréttur Bandaríkjanna kom fyrst saman árið 1790. Fyrst um sinn komu fá mál á borð hæstaréttar Bandaríkjanna en fyrsta dómsuppkvaðning hans varð í réttarfarsmáli West gegn Ellsworth árið 1791.[2] Á þeim tíma var hæstirétturinn án húsakynna og heimilisfangs og skorti almennt virðingu og upphefð[3].

Á tíma John Marshall í embætti forseta hæstaréttar Bandaríkjanna, á árabilinu 1801-1835, urðu miklar breytingar á háttum réttarins, upphefð hans og virðingu. Meðal þeirra breytinga sem urðu þá var yfirlýsing réttarins um að hann væri æðsti túlkandi stjórnarskrárinnar og einnig féllu dómar sem drógu skýrar línur um hlutverk hans í hinu stjórnarskrárbundna valdajafnvægi milli ríkjanna og alríkisins[4]. Við lok embættistíðar John Marshall lagði rétturinn niður þá aðferð að hver hæstaréttardómari kvæði upp sinn eigin úrskurð og var þess í stað tekin upp aðferð meirihlutaúrskurða, þ.e. að einfaldur meirihluti hæstaréttardómara kvæði upp einn sameiginlegan dómsúrskurð[5], og hefur sá háttur verið hafður allar götur síðan þá.

Fjöldi hæstaréttardómara[breyta]

Stjórnarskrá Bandaríkjanna tekur ekki sérstaklega fram fjölda dómara í hæstaréttinum en samkvæmt þriðju grein stjórnarskrárinnar hefur Bandaríkjaþing yfirráð til að ákveða fjölda dómara[6]. Samkvæmt lögum um dómstólaskipan (e. Judiciary Act of 1789) frá árinu 1789 kveður á um að skipaðir séu sex dómarar. Eftir því sem landið stækkaði landfræðilega bætti Bandaríkjaþing við dómurum til að samsvara aukinni yfirferð dómstólanna (e. judicial circuits). Bætt var við einum dómara árið 1807 og þannig urðu þeir sjö, níu árið 1837 og tíu árið 1863. Samkvæmt lögum um dómstólaskipun frá árinu 1869 var ákveðið það ár að dómarar skyldu vera níu talsins og hefur sá fjöldi verið sá sami allar götur síðan.

Skipun dómara í hæstarétt Bandaríkjanna[breyta]

Önnur grein stjórnarskrár Bandaríkjanna veitir Bandaríkjaforseta umboð til að tilnefna dómara en þó einungis með ráðgjöf og samþykki öldungadeildar[7]. Flestir forsetar tilnefna dómara í hæstarétt sem deilir sömu hugmyndafræði en það tryggir þó ekki að sá dómari sem tilnefndur var af viðkomandi forseta taki ákvarðanir út frá því sem er forsetanum í hag. Þar sem stjórnarskráin setur ekki fram nein skilyrði sem dómari þarf að uppfylla getur forsetinn tilnefnt hvern sem er í stöðu dómara. Öldungadeildin þarf þó alltaf að samþykkja dómara áður en hann öðlast stöðu sína sem dómari hæstaréttar.

Samþykki öldungadeildar felst í að einfaldan meirihluta þarf til að samþykkja eða hafna frambjóðanda. Ekki samþykkir öldungadeildin alltaf þá sem forsetinn tilnefnir en það hefur gerst 12 sinnum þar sem öldungadeildin tók afgerandi stöðu gegn tilnefningu forsetans og höfnuðu því frambjóðandanum en það telst þó afar sjaldgæft að slíkt gerist.

Seta í embætti[breyta]

Að meðaltali sitja hæstaréttardómarar í meira en 25 ár áður en þeir ýmist segja af sér eða láta lífið. Í ársbyrjun 2005 var meðal starfsaldur núverandi dómara rétt undir 20 ár og sá sem yngstur var í starfinu hafði setið frá árinu 1994. Þar sem svona hár starfsaldur ríkir hjá hæstaréttardómurum er farið afar varlega í ráðningar en það er vegna þess að bæði er vilji fyrir því að ráða dómara sem deila sömu pólitísku hugmyndafræðinni og þeir og von er um að þeir komi til með að halda áfram að hafa áhrif á þá hugmyndafræði næstu áratugina. Að sama skapi er farið afskaplega varlega í þessa ráðningu sökum þess hversu neyðarlegt það getur verið út frá pólitísku sjónarmiði að tilnefna einhvern sem síðar meir er uppvís að smánarlegu leyndarmáli, hvort sem það tengist fjölskyldu eða frama[8].

Sá dómari sem lengst hefur setið í hæstarétti er William O. Douglas, sem sat 36 ár og 209 daga. Douglas sem var einn eindregnasti talsmaður persónufrelsis og borgaralegra réttinda í sögu réttarins var skipaður 15. apríl 1939 af Franklin D. Roosevelt sem eftirmaður Louis O. Brandeis. Þrátt fyrir að hafa fengið heilablóðfall í desember 1974 neitaði Douglas að láta af störfum fyrr en 12. nóvember 1975. Eftirmaður Douglas var John Paul Stevens.

Hæstiréttur og pólitík[breyta]

Dómarar hæstaréttarins eru ekki studdir opinberlega af stjórnmálaflokkum eins og þekkist hjá framkvæmdar- og löggjafarvaldinu. Þeim er hinsvegar skipt óformlega niður í þrjá flokka, íhaldssama, frjálslynda og svo þeir sem eru mitt á milli. Þessi skipting tengis þó einungis lagalegri hlið málsins þar sem dómarar eiga að vera óháðir flokkum. Hæstiréttur er ekki laus við pólitísk tengsl en hver dómari ræður til sín aðstoðarmenn sér til stuðnings. Aðstoðarmenn dómarans hafa óskrifað vald sem felst í að hugmyndir þeirra koma fram í gegnum skrif á dómum sem þeir vinna fyrir sinn dómara. Hefur það tíðkast að dómarar velji sér aðstoðarmenn sem tengjast einum flokk fremur en öðrum og má í því samhengi nefna Clarence Thomas hæstaréttardómara, en hann hefur ráðið til sín 84 aðstoðarmenn á 20 árum og hafa þeir allir tengst Repúblikanaflokknum.[9]

Valdsvið hæstaréttar[breyta]

Valdsvið hæstaréttar afmarkast í öðrum hluta þriðju greinar stjórnarskrár Bandaríkjanna. Valdsviðinu má skipta í tvo hluta og eru það annarsvegar mál sem rétturinn getur tekið upp beint og hinsvegar mál sem hefur verið áfrýjað frá öðrum dómsstigum[10]. Dómurinn velur mál sem gjarnan eru deilumál innan þjóðfélagsins, mál sem snúa ýmist að þinginu eða forseta landsins og mál sem krefjast túlkunar á stjórnarskránni. Þetta eru þá frekar óskráðar reglur þar sem hæstiréttur útskýrir aldrei ástæðu valsins[11].

Hæstiréttur getur tekið upp mál án þess að þeim hafi verið áfrýjað til réttarins. Hæstiréttur er í hlutverki fyrsta dómsstigs í ákveðnum tegunda mála. Dæmi um slík mál eru þegar sendiherrar eða aðrir ráðherrar eiga hlut að máli, í málum þar sem ríki er annar málsaðili og þegar ríki fer í mál við annað ríki vegna deilna[12].

Núverandi Dómarar[breyta]

Forseti Hæstaréttar:
John G. Roberts (f. 1955, skipaður árið 2005 af George W Bush)

Meðdómarar:
Antonin Scalia (f. 1936, skipaður árið 1986 af Ronald Reagan)
Anthony Kennedy (f. 1936, skipaður árið 1988 af Ronald Reagan)
Clarence Thomas (f. 1948, skipaður árið 1991 af George H.W. Bush)
Ruth Bader Ginsburg (f. 1933, skipuð árið 1993 af Bill Clinton)
Stephen Breyer (f. 1938, skipaður 1994 af Bill Clinton)
Samuel Alito (f. 1950, skipaður 2006 af George W. Bush)
Sonia Sotomayor (f. 1954, skipuð 2009 af Barack Obama)
Elena Kagan (f. 1960, skipuð 2010 af Barack Obama)

Forsetar Hæstaréttar[breyta]

John Jay, (1789 - 1795) skipaður af George Washington
John Rutledge, (1795) skipaður af George Washington
Oliver Ellsworth, (1796-1800) skipaður af George Washington
John Marshall, (1801-1835), skipaður af John Adams
Roger B. Taney, (1836-1864), skipaður af Andrew Jackson
Salmon P. Chase, (1864-1873), skipaður af Abraham Lincoln
Morrison Waite, (1874-1888), skipaður af Ulysses S. Grant
Melville Fuller, (1888-1910), skipaður af Grover Cleveland
Edward D. White, (1910-1921), skipaður af William Howard Taft
William H. Taft, (1921-1930), skipaður af Warren G. Harding
Charles E. Hughes, (1930-1941), skipaður af Herbert Hoover
Harlan F. Stone, (1941-1946), skipaður af Franklin D. Roosevelt
Fred M. Vinson, (1946-1953), skipaður af Harry S. Truman
Earl Warren, (1953-1969), skipaður af Dwight D. Eisenhower
Warren E. Burger, (1969-1986), skipaður af Richard M. Nixon
William Rehnquist, (1986-2005), skipaður af Ronald Reagan
John G. Roberts, (2005- ), skipaður af George W. Bush

Tilvísanir[breyta]

 1. The Constitution of the United States.
 2. United States reports volumes 2 – 107 (1791 – 1882). Dates of Supreme Court decisions and arguments.. Sótt 25. október 2010.
 3. Gerber, S. D. (1998). Seriatim: The Supreme Court Before John Marshall. Bls 3. New York og London: New York university press.
 4. Newsweek.com. (e.d.). "Why Marbury V. Madison Still Matters.". Sótt 25. október 2010.
 5. Washingtonpost.com (e.d.). The Supreme Quiz. Sótt 25. október 2010.
 6. The Constitution of the United States.
 7. The Constitution of the United States.
 8. Katz, R. S. (2007). Political institutions in the United States. Bls 136-138. New York: Oxford university press.
 9. NYtimes.com (6.september 2010). A Sign of the Court’s Polarization: Choice of Clerks. Sótt 25. október 2010.
 10. The Constitution of the United States.
 11. Washingtonpost.com (2009). Choosing Cases. Sótt 25. október 2010.
 12. The Constitution of the United States.