Réttindaskrá Bandaríkjanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Réttindaskrá Bandaríkjanna
(e. The Bill of Rights)
Rituð: árið 1789
Samþykkt: árið 1791
Höfundur: James Madison
Tilgangur: Að efla réttindi einstaklinga gagnvart ríkinu

Réttindaskrá Bandaríkjanna (enska: The Bill of Rights) var frumvarp sem lagt var fram af James Madison árið 1789 en þar voru lagðar fram breytingartillögur á stjórnarskránni sem hafði verið tekin í notkun árið 1787. Madison sem er talinn til „landsfeðra“ Bandaríkjanna átti stóran þátt í mótun samfélagsins á þessum tíma.

Réttindaskrá (e. The Bill of Rights USA)[breyta]

Frumvarpið var hugsað til að bæta réttindi almennings sem þóttu ekki nægilega vel varðveitt í upprunalegu stjórnarskránni, því voru ritaðir viðaukar sem innihéldu mun ýtarlegri útlistun á borgaralegum réttindum. Svo frumvarpið gæti orðið að veruleika og tekið gildi sem viðbót við stjórnarskránna þurfti að fá samþykki 3/4 hluta aðildarríkja Fyrsta sameinaða ríkjaþingsins (e. First United State Congress). Breytingarnar voru síðar samþykktar þar þann 15 desember árið 1791. Með frumvarpinu var öryggi almennings gagnvart ríkinu aukið og vald ríkisins gagnvart borgurum takmarkað verulega.

Uppruni[breyta]

Þegar hafið var vinnu við að rita réttindaskránna var horft aftur og meðal annars stuðst við Magna Carta frá árinu 1215 og réttindaskrá Englands frá árinu 1689. Þegar stjórnarskráin hafið verið samþykkt höfðu andstæðingar hennar áhyggjur af þeim möguleika að ríkisstjórnin gæti beitt þegna landsins harðræði og þar með gengið á borgaraleg réttindi þeirra. Hafði þar mikið að segja hvernig framkoma Breta hafði verið á byltingartímanum og brot þeirra gegn almenningi í landinu. Nokkur ríki höfðu meðal annars sett það sem skilyrði fyrir undirritun stjórnarskráarinnar að viðauki líkt og réttindaskráin yrði settur.[1] Til að auka enn á mikilvægi þess að réttindaskrá yrði rituð þá hafði Thomas Jefferson skrifað bréf til James Madison þar sem hann lýsti því yfir að réttindaskrá væri eitthvað sem allir einstaklingar ættu rétt á gagnvart ríkisstjórnum hvar sem er í heiminum.[2]

Gagnrýni[breyta]

Alexander Hamilton gagnrýndi frumvarpið með skrifum sínum í Federalist skjali nr. 84, þar beitti hann meðal annars þeim rökum að með því að tilgreina þau réttindi sem nytu verndar gæti komið upp sú staða að þau réttindi sem ekki væru nefnd myndu ekki vera virt og þar af leiðandi ekki njóta sömu verndar og önnur. Hamilton vildi halda því fram að með stjórnarskránni væri fólk ekki að afsala sér réttindum sínum og því væri í raun ekki nauðsynlegt að bæta réttindaskránni við stjórnarskránna þar sem stjórnarskráin veitti í raun borgaraleg réttindi.[3]

Réttindi almennings[breyta]

Réttindaskráin er safn tíu greina þar sem tilgreint er um réttindi almennings gagnvart ríkinu en þau eru.

  1. Óheimilt er fyrir þingið að setja lög sem hindra trúfrelsi, málfrelsi, prentfrelsi og lög sem hindra friðsamleg mótmæli.
  2. Þá er einnig viðurkennt mikilvægi þess að hafa borgaralegan her til að verja frelsi ríkisins og þar með rétt almennings til að bera vopn.
  3. Mikilvægi þess að almenningur njóti verndar frá hermönnum bæði á friðar og ófriðar tímum og það að hermenn fylgi lögum og séu ekki að ráðast inná heimili manna óboðnir.
  4. Réttur einstaklinga til að vera öruggir, að ekki sé leitað á þeim eða heimilum þeirra og ekki sé gefið út handtökuskipun á þá nema að rökstuddur grunur liggi fyrir afbroti, að tilgreint sé fyrirfram hverju sé leitað að og hvað eigi að taka.
  5. Enginn einstaklingur á að vera látinn sæta refsingar án þess að mál hafi verið flutt fyrir dómstól þar sem kviðdómur jafningja situr, nema þegar kemur að málefnum land, sjó eða borgaralegs hers á tímum stríðs. Þá skal enginn einstaklingur sæta ákæru fyrir sama brot tvisvar (e. double jeopardy) ekki má þvinga menn til að vitna gegn sjálfum sér ekki má svipta menn lífi, frelsi eða eigna án dóms og laga, einnig má ekki svipta einstaklinga eignum til opinbera nota án þess að greiða bætur fyrir.
  6. Allir sem sæta ákæru í sakamálum eiga rétt á fljótu opinberu réttarhaldi þar sem óháður kviðdómur úr fylkinu þar sem brotið á sér stað dæmir í málinu. Ákærði á rétt á því að vita hver ákæran sé á hendur sér og rétt til að finna vitni sem hjálpa máli hans, þá á ákærði rétt á aðstoð lögmanns við vörn sína.
  7. Réttur til að höfða einkamál sem flutt er fyrir kviðdómi skal vera ef andvirði kröfunnar fer yfir 20 dollara, niðurstöður kviðdóms skal ekki endurskoðuð fyrir öðrum rétti í Bandaríkjunum nema það sem fylgir reglum fordæmisréttar (e. Common Law).
  8. Ekki er heimilt að leggja óhóflega kröfu um tryggingu, þá má ekki leggja óeðlilegar sektir fram né heldur beita grimmúðlegri og ósanngjarnri refsingu.
  9. Ekki má beita upptalningu vissra réttinda í stjórnarskránni til afneita eða gera lítið úr öðrum réttindum einstaklinga.
  10. Þau völd sem ekki eru færð Alríkinu samkvæmt stjórnarskránni eða af ríkjum innan þess, eru ætluð Ríkjum þar innan eða almenningi

sjálfum.[4]

Tilvísanir[breyta]