Fara í innihald

Örfirisey

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Örfyrisey)
Fyrir landslagsþáttinn, sjá örfirisey (landslagsþáttur).
Kort sem sýnir örnefni í Reykjavík og nágrenni.
Örfirisey í fjarska

Örfirisey (einnig þekkt sem Örfirsey og áður Örfærisey, Öffursey, Örfursey og Effirsey) er fyrrverandi örfirisey við Kollafjörð sem nú hefur verið tengd með landfyllingu við meginland Reykjavíkur. Svæðið telst til Vesturbæjarins. Áður fyrr var í Örfirisey aðsetur kaupmanna. Færeyska ættarnafnið Effersöe er dregið af nafni Örfiriseyjar. Norðvesturhorn eyjarinnar/nessins heitir Reykjanes.

Fyrr á tímum var ræktað korn og veiddur selur í Örfirisey. Í Oddgeirsmáldaga frá árinu 1379 er kveðið á um að Jónskirkja í Vík eigi landsælding (eitt sáld, þ.e. um 100 kg útsæðiskorns) og selalátur í Örfirisey.

Örfirisey var kölluð Effersey áður fyrr. Þar var sjálfstæð bújörð frá um 1500 til 1861 þegar byggð lagðist þar af. Kaupmannsbúðirnar á Grandahólma norðan við eyjuna voru fluttar þangað á 17. öld. Þær voru svo fluttar til Reykjavíkur 1780. Árið 1835 varð Örfirisey hluti af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur og 1906 eignaðist borgin eyjuna. Hafnargarður var reistur á grandanum út í eyna við þegar Reykjavíkurhöfn var byggð.[1]

Olíubirgðastöðin í Örfirisey

[breyta | breyta frumkóða]

Í Örfirisey er olíubirgðastöð en árið 1950 hóf Olíufélagið að byggja þar olíubirgðageyma. Árið 1970 fékk Skeljungur úthlutað lóð við hlið lóðar Olíufélagsins hf og hafa olíufélögin samstarf þar hvað varðar öryggismál og rekstur löndunarlagna. Árið 1995 voru þrjár olíubirgðastöðvar starfræktar í Reykjavík: stöðin í Örfirisey, birgðastöð Skeljungs hf í Skerjafirði og olíubirgðastöð Olíuverzlunar Íslands í Laugarnesi. Á því ári var hafinn undirbúningur að sameiningu reksturs olíubirgðastöðva Olíudreifingar í Örfirisey og voru þrír geymar fluttir úr stöðinni í Laugarnesi í Örfirisey í þeim tilgangi, en Laugarnesstöðin var tekin úr notkun 1997. Árið 1998 seldi Skeljungur lóð félagsins í Skerjafirði og síðan þá er Örfirisey eini staðurinn í höfuðborginni sem olíubirgðastöðvar eru starfræktar.

Árið 1986 var fyrsti hluti Eyjargarðs byggður og lestun strandflutningaskipa flutt þangað frá olíubryggju við Grandagarð því ekki þótti ásættanlegt að bensíni væri lestað í skip í miðri fiskiskipahöfn. Á svipað leyti var geymslu á bensíni í olíubirgðastöðinni Hafnarfirði og olíubirgðastöð Skeljungs í Skerjafirði hætt.

Í upphafi var eldsneyti landað í stöðina gegnum neðansjávarleiðslur þar sem innflutningsskip lágu við legufæri norðan við stöðina en með tilkomu Eyjargarðs II sem Reykjavíkurhöfn byggði geta innflutningsskip allt að 45.000 DWT lagst að bryggju á öruggan hátt. Með þeirri framkvæmd jókst öryggi olíuinnflutnings í Örfirisey og var olíuinnflutningur til Reykjavíkur sameinaður á einum stað. Lagnir og annar búnaður á Eyjargarði er sameign Olíudreifingar ehf og Skeljungs. Bygging Eyjargarðs II fór í umhverfismat samkvæmt þágildandi lögum og var fyrsta framkvæmdin sem fór í gegnum slíkt mat. Umsagnaraðilar í umhverfismati töldu að bygging garðsins væri til bóta fyrir umhverfismál olíulöndunar í Reykjavík.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Alfræði Reykjavíkur Geymt 3 nóvember 2017 í Wayback Machine eftir Guðjón Friðriksson
  • „Hvort er réttara að segja Örfirisey eða Örfirsey?“. Vísindavefurinn.