Þriðja krossferðin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Umsátrið um Akkó

Þriðja krossferðin eða Konungakrossferðin var krossferð sem Hinrik 2. Englandskonungur og Filippus 2. Frakkakonungur leiddu til Landsins helga til að ná aftur þeim löndum sem Seljúkveldið hafði lagt undir sig. Krossferðin náði markmiðum sínum að mestu og krossfarar lögðu borgirnar Akkó og Jaffa undir sig, en mistókst að ná Jerúsalem.

Eftir ósigur krossfara í Annarri krossferðinni og sigra gegn Fatímídum ríkti Saladín yfir sameinuðu Sýrlandi og Egyptalandi. Hann náði Jerúsalem á sitt vald árið 1187 og þrengdi að krossfararíkjunum. Hinrik og Filippus ákváðu þá að leggja niður ágreiningsmál og gerast bandamenn. Þegar Hinrik lést árið 1189 tók sonur hans, Ríkharður ljónshjarta, við enska hernum. Hinn aldraði keisari, Friðrik Barbarossa, leiddi líka stóran her yfir Anatólíu en drukknaði í á 10. júní 1190 áður en hann náði til Landsins helga. Flestir hermenn hans sneru þá heim aftur.

Filippus og Leópold 5. hertogi, arftaki Friðriks, sneru heim frá Landinu helga þegar þeir höfðu lagt Akkó undir sig 12. júlí 1191. Ríkharður hélt áfram og lagði Jaffa undir sig, sem var forsenda fyrir árás á Jerúsalem. Í nóvember sótti her hans til Jerúsalem en neyddist til að hörfa. Í júlí árið eftir náði Saladín Jaffa aftur á sitt vald en Ríkharður lagði borgina fljótt aftur undir sig. Eftir það ákvað Saladín að semja um frið við Ríkharð sem hvarf frá Landinu helga 9. október 1192.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.