Þjóðbúningur
Þjóðbúningur er fatnaður sem er einkennandi fyrir ákveðna þjóð, þjóðarbrot eða menningu.
Á Vesturlöndum eru þjóðbúningar yfirleitt hefðbundinn fatnaður sem fólk klæddist áður fyrr, á hátíðisdögum eða hversdags, en er nú fyrst og fremst notaður á þjóðhátíðum og við ýmis önnur hátíðleg tækifæri, einkum þau sem tengjast sögu og þjóðlegri menningu á einhvern hátt. Í flestum Evrópulöndum er þjóðbúningurinn gamall sparifatnaður bændafólks og tengist upptaka hans rómantískri þjóðernisstefnu. Sumstaðar er um eiginlegan þjóðbúning að ræða, en í ýmsum löndum hefur hvert hérað eða landsvæði sinn sérstaka búning. Einnig eru dæmi um að hefðbundinn hversdagsfatnaður verði ígildi þjóðbúnings, svo sem þýskar lederhosen og baskahúfur.
Í mörgum löndum utan Vesturlanda er þjóðbúningurinn hverdagsfatnaður, þau föt sem fólk klæðist á hverjum degi, og til eru lönd þar sem það er bundið í lög að fólk klæðist þjóðbúningi, til dæmis í Bútan.