Útópískur sósíalismi
Útópískur sósíalismi er hugtak sem er notað til að lýsa þeim hugmyndum sósíalískra hugsuða sem voru uppi á fyrri hluta 19 aldar.
Í kjölfar iðnbyltingarinnar sem var kominn á fullt skrið í Bretlandi og Frakklandi upp úr 1820 varð lífið erfitt og dapurt. Tækniframfarir og verksmiðjur juku framleiðslu langt umfram það sem hægt var áður en verksmiðjur þurfa vinnuafl sem oft var misþyrmt. Fullorðnir og börn unnu langa vinnudaga í erfiðum og hættulegum vinnustöðum.[1]
Verkalýðshreyfingar svo sem Lúddítahreyfingin í Bretlandi og Frakklandi sem var sterkust 1808-1820 reyndu að koma á breytingum með mótmælum og ofbeldi en hreyfingarnar voru bældar niður með hervaldi. Á eftir þeim komu verkalýðshreyfing Robert Owens og Sáttmálahreyfingin ennþá síðar sem náðu kannski ekki öllum sínum markmiðum en þessar hreyfingar ýttu undir pólitíska vitund verkalýðsins í Bretlandi og Frakklandi.[2]
Á þessari sturlungaöld verkalýðsins lögðu margir hugsuðir fram hugmyndir um hversu gott samfélagið gæti orðið, Robert Owen, Charles Fourier og Henri de Saint-Simon til að nefna nokkra. Allir sáu fyrir sér framtíð útópískra sósíalískra samfélaga, þar sem fátækt, neyð, misskiptingu og efnahagslegu óréttlæti hafði verið útrýmt. Framleiðsluþættirnir skyldu vera í almannaeign og notað í almannaþágu. Aðalatriði þessarra hugsuða voru mjög svipuð þótt að smáatriðunum hafi munað.
Einn mikilvægasti munur hugmynda þeirra og síðari sósíalista, anarkista og marxista er að útópískir sósíalistar höfnuðu stéttabaráttu og byltingu sem leið að markmiðum sínum. Í staðinn sáu þeir fyrir sér að framtíðarríkið myndi vaxa af sjálfu sér innan ríkjandi þjóðfélagskerfis, t.d. í formi fyrirmyndarsamfélaga á borð við þau sem Owen reyndi að koma á fót í Englandi og Bandaríkjunum.
Owen og fleiri reyndu að stofna fyrirmyndarsamfélög í Bandaríkjunum þar sem siðferðilegir og efnahagslegir yfirburðir sameignar- eða samvinnusamfélaga þeirra áttu að vera slíkir að allir skynsamir menn myndu taka upp hætti þeirra og allt samfélagið þannig hægt og rólega umbreytast af sjálfu sér.[1]
Útópískur sósíalismi, og þá sérstaklega hugmyndir Owen og Saint-Simon, höfðu mikil áhrif á ýmsa frjálslynda og sósíalíska hugsuði 19. aldar. Hugmyndir Owen höfðu mikil áhrif á þróun sáttmálahreyfingunnar.
Gagnrýni á útópískan sósíalisma
[breyta | breyta frumkóða]Karl Marx og Friedrich Engels voru fyrstu fræðimennirnir til þess að nota hugtakið útópískur sósíalismi og skilgreindu þeir það í skrifum sínum. Marx notaði fyrst hugtakið í ritinu “Miskunnarlaus gagnrýni á allt," For a Ruthless Criticism of Everything (1843). Síðar notuðu Marx og Engels hugtakið í Kommúnistaávarpinu (1848) og að lokum krufði Engels muninn á bók sem kallaðist Sósíalismi: Útópískur og Vísindalegur.[3] Í skrifum sínum lögðu þeir áherslu á að kenningar útópísks sósíalisma skorti vísindalega greiningu á kapítalísku þjóðskipulagi, þær væru aðeins hugmyndir um hvaða markmiði ætit að stefna að, en ekki hvernig nálgast ætti markmiðið.[4] Til þess að uppræta tátækt og efnahagslegu óréttlæti þyrfti að gjörbreyta samfélagsgerðinni. Engels sagði að því lengur sem hann velti fyrir sér hugmynd útópískra sósíalista um að þetta myndi gerast að sjálfu sér, þökk sé skynsemi og rökhugsun, því sannfærðari væri hann um að hugmyndir þeirra væru hreinir draumórar.[3]
Hugtakið útópískur sósíalismi var notað í niðrandi merkingu af marxistum, sem lögðu áherslu á að kenningar þeirra væru heimspekilegar vangaveltur, ólíkt vísindalegri aðferð Marx, sem greindi hagkerfi kapítalismans með skipulegum hætti og með greiningartækjum hagfræðinnar í stað gildisdóma og siðferðilegra mælikvarða. Hugmyndir útópískra sósíalista voru þó ekki jafn draumórakenndar eða rómantískar og margir síðari tíma gagnrýnendur vildu meina, heldur lögðu þeir flestir áherslu á mikilvægi vísinda og sérfræðinga í framtíðarríkinu, og gerðu þó skrif þeirra um efnahagsmál hafi ekki verið jafn formleg og greiningar Marx og klassískra hagfræðinga 19 aldar, settu þeir fram skipulega gagnrýni á iðnbyltinguna sem var þá að ganga yfir Evrópu.
Að lokum má segja að nálgun útópískra sósíalista til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd hafi verið mjög gölluð. Útópísku sósíalistarnir höfðuðu til efri stéttanna til að gera hugmyndir sínar að veruleika. Efri stéttirnar höfðu kannski valdið til að gera tilraun til útópíusamfélaga sem þessir spekingar lögðu til en þeir höfðu ekki hvatann til þess. Owen höfðaði í fyrstu til Bresku ríkisstjórnarinnar til að stofna fyrirmyndarsamfélagið sitt en því var neitað. Fourier auglýsti og beið árum saman eftir fjármagni til að hrinda sínum hugmyndum í verk en enginn fjármagnseigandi bauð sig fram.[1]
Marx orðar það svo að útópísku sósíalistarnir vildu breyta samfélaginu með því að byggja utan um það en ekki efla verkalýðsstéttina eins og hann taldi þörfina vera.[5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 Robert L. Heilbroner (1999). The worldy philosophers: The lives, times and ideas of the great economic thinkers, revised seventh edition. Touchstone.
- ↑ Ernesto Screpanti; Stefano Zamagni (2005). An outline of the history of economic thought, second edition. Oxford university press.
- ↑ 3,0 3,1 „Socialism: Utopian and Scientific (Chpt. 1)“. www.marxists.org. Sótt 23. september 2022.
- ↑ „Communist Manifesto (Chapter 3)“. www.marxists.org. Sótt 23. september 2022.
- ↑ Karl Marx; Freidrich Engels (1848). Kommúnistaávarpið.