Ástrónesísk tungumál
Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. Aðalvandamál þessarar greinar: stafsetning og málfar |
Ástrónesísk tungumál eru ein stærsta málaætt jarðar. Hún teygir sig frá Madagaskar í vestri til Páskaeyju í austri og frá Tævan og Havæ í norðri til Nýja Sjálands í suðri. Alls telur ættin um 700 tungumál.
Tökuorðið „ástrónesískt“ hefur ekkert með Ástralíu að gera, enda eru þessi mál ekki töluð þar þó þau séu töluð þar allt í kring. „Ástró“ er leitt af auster úr latínu sem merkir „suður“ (og er reyndar skylt austur) og νῆσος (nesos) úr grísku sem merkir „eyja“. Þess má þó geta að heiti Ástralíu er enn fremur leitt af 'auster' úr latínu.
Af einkennandi atriðum fyrir mál þessarar ættar má nefna að ákveðni greinirinn er ávallt laus á undan, fleirtala nafnorða er oft mynduð með tvítekningu og samhljóðarunur eru af mjög skornum skammti. Sem dæmi um hve takmarkaðar samhljóðarunur eru má nefna að í havæísku eru aldrei tveir samhljóðar í röð og ekkert orð í málinu endar á samhljóða. Enn fremur eru tvær útgáfur af persónufornafni fyrstu persónu fleirtölu, það er að segja annars vegar „ég og hann“ eða „ég og þeir“, sem vísar til fyrstu persónu eintölu auk þriðju persónu, og hins vegar „ég og þú“ eða „ég, þú og fleiri“, sem vísar til fyrstu persónu eintölu auk annarrar persónu. Þetta eru með öðrum orðum áheyrenda-aðgreinandi fleirtölufornöfn.
Talið er að ástrónesísk mál séu upprunin á Tævan og hafi þaðan dreifst út um heiminn. Nýlegar niðurstöður erfðafræðirannsókna þykja styrkja þá tilgátu. Áður fyrr var mikið litið til Suður-Kína sem 'úrhæmat' eða upprunalandsvæði þessarar málaættar. Kínverjar hófu að flytja til Tævan í stórum stíl á sautjándu öld og í dag tala aðeins um 2% íbúa Tævan ástrónesísk mál. Þekkt eru 25 ástrónesísk tævönsk frumbyggjamál, en þar af eru 9 útdauð og þau sem eftir lifa eru mörg í hættu á að fara sömu leið. Lifandi eru atíal, búnúní, amis, kanakanabú, kavalan, pævan, sassíat, púíúma, rúkæ, saróa, sídik, taó, tsú, pasei, síræja og jamí en útdauð teljast basaí, ketagalan, taokas, babúsa, favorlang, papora, hóanía, tævóan og makatá. Af þessum málum nýtur jamí talsverðrar sérstöðu þar sem málið er ekki talað á sjálfri Tævan-eyju heldur á eyjunni Bútúrú sem liggur 46 kílómetra suðaustur af Tævan. Jamí barst ekki til eyjarinnar fyrr en um árið 1200 e.Kr. með sæfarendum frá Filippseyjum og tilheyrir það því allt annari grein ástrónesískra mála.
Ástrónesísk mál flokkast í tvo frumflokka, vestur og austur. Austurmálin tala um 2 milljónir manna en vesturmálin um 380 milljónir.