Fiskinet
Fiskinet samanstanda af ferköntuðu neti með flotteini að ofan, blýteini eða steinateini að neðan og brjósti eða tóg á hliðunum. Til að veiða sem flesta fiska í netin þurfa netin að vera sem ósýnilegust fiskunum. Því er reynt að nota sem grennst garn og er það oftast úr næloni, sem er bæði sterkt og sveigjanlegt. Einnig er oft notaður grár litur sem er nánast ósýnilegur í sjónum.
Lagnet eru net sem eru lögð við sjávarbotn og eru til í mörgum mismunandi útfærslum og er þá talað um þorskanet, ýsunet, grásleppunet, kolanet, silunganet o.s.frv. Mismunurinn felst einkum í möskvastærð en einnig er munur á efni, stærð og gerð netanna. Veiðarnar byggjast á því að fiskurinn syndi á netið og festist í því og oftast fer garnið undir tálknlokin.
Þorskanet eru einkum notuð á vetrarvertíð við veiðar á þorski er hann gengur til hrygningar seinni hluta vetrar. Lágmarksmöskvastærðin er 139,7 mm (5 1/2 tommur). Oft eru þó notaðir mun stærri möskvar við þorskveiðar, eða allt að 254 mm (10 tommum). Netin eru 30-70 möskva djúp og um 50 metra löng. Nokkur net eru í hverri trossu og nokkrar trossur lagðar af hverju skipi. Netin eru látin liggja í 1-2 sólarhringa áður en þeirra er vitjað en miklu getur munað á gæðum fisks eftir því hve lengi hann liggur í netunum. Ýsunet eru svipuð þorskanetum að stærð og gerð en hafa heldur smærri möskva, 140-150 mm og eru eingöngu notuð sunnan- og suðvestanlands.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Guðni Þorsteinsson (1980). Veiðar og veiðarfæri. (Reykjavík: Almenna bókafélagið).
- Ingibjörg Jónsdóttar. Veiðarfæri. Sótt 9. apríl 2009 af Fiskar.is Geymt 20 febrúar 2005 í Wayback Machine.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]