Xining Caojiabao-alþjóðaflugvöllurinn
Alþjóðaflugvöllur Xining Caojiabao (IATA: XNN, ICAO: ZLXN) (kínverska: 西宁曹家堡国际机场; rómönskun: Xīníng Cáojiābǎo Guójì Jīchǎng) er flughöfn Xining höfuðborgar Qinghai héraðs í Alþýðulýðveldinu Kína.
Flugvöllurinn er staðsettur í 2170 metra hæð yfir sjó, í Huzhu sýslu, Haidong, um 30 km austur af miðborg Xining.
Flugvöllurinn tók til starfa árið 1991 og var stækkaður árið 2011 þegar byggð var ný 3.800 metra löng flugbraut í stað þeirrar gömlu. Þriðja stækkunin hófst árið 2018. Vegna aukinnar umferðar og meiri áherslu á ferðaþjónustu var nafni flugvallarins breytt árið 2018, þar sem hann fékk opinberlega viðskeytið „alþjóðaflugvöllur“.
Strætisvagnar tengja flughöfnina við miðborg Xining. Reglubundnar ferðir almannavagna eru í boði til nágrannabæja.
Flugfélögin China Eastern Airlines, China Southern Airlines, Loong Air og Sichuan Airlines, eru umsvifamest á flugvellinum. - Alls starfa þar 18 flugfélög.
Flestir áfangastaðir eru innan Kína, en einnig eru alþjóðaflug frá Xining til Hong Kong, Tókýó, Taípei, Bangkok, Kuala Lumpur, og fleiri staða. Flugvöllurinn þjónar einnig sem varaflugvöllur fyrir Urumqi Diwopu alþjóðaflugvellinn vegna flugleiða til Evrópu og Vestur-Asíu.
Árið 2018 var flugvöllurinn með um 6.4 milljónir farþega.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Kínversk vefsíða Xining Caojiabao alþjóðaflugvallarins Geymt 10 nóvember 2017 í Wayback Machine.
- Vefsíða Travel China Guide um Xining Caojiabao flugvöllinn.. Almennar upplýsingar, kort af flugvellinum, samgöngur almenningsvagna á flugvöllinn o.fl.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Xining Caojiabao International Airport“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 26. janúar 2021.