Fara í innihald

Wilhelm Wundt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Wundt)
Wilhelm Wundt er oft talinn upphafsmaður vísindalegrar sálfræði

Wilhelm Wundt (16. ágúst 1832 í Neckarau í Baden31. ágúst 1920) var þýskur sálfræðingur.

19 ára gamall ákvað Wundt að fara á læknisfræðibraut því að þar var hægt að læra um mannlegt atferli og sálarlíf, nokkuð sem hann hafði mikinn áhuga á. Hann útskrifaðist síðan úr læknisfræðinámi með hæstu einkunn árið 1856. Wundt fékk áhuga á lífeðlisfræði, einkum lífeðlisfræði skynjunar, þar sem hann taldi að hún gæti aukið skilning manna á sálarlífinu. Wundt varð dósent við háskólann í Heidelberg. Árið 1858 gerðist hann aðstoðarmaður Hermanns von Helmholtz. Þar skrifaði hann Framlag til kenningar um skyntúlkun árin 1858 – 62. Wundt beitti sér fyrir því að viðfangsefni sálfræðinnar væru rannsökuð með tilraunaaðferð raunvísinda.

Margir rekja upphaf sálfræðinnar til Wilhelms Wundts þar sem hann var sá fyrsti til að stofna rannsóknarstofu þar sem sálfræðileg viðfangsefni voru tekin til skoðunar. Rannsóknarstofuna stofnaði hann í Leipzig í Þýskalandi árið 1879. Wundt var frumkvöðull á mörgum sviðum sálfræðinnar og var meðal þeirra fyrstu til að gefa út bæði kennslubækur og tímarit sem fjölluðu um sálfræði. Þess vegna hefur hann fengið viðurnefnið „faðir sálfræðinnar“.

Wilhelm Wundt kom fram með formgerðarstefnuna. Hún fól í sér að viðfangsefni sálfræðinnar ætti að vera meðvituð hugarstarfssemi og það ætti að rannasaka hana með sjálfsskoðun. Atferlissinnar eru þó algjörlega á móti sjálfsskoðun meðal annars af því að menn geta ekki verið hlutlægir þegar þeir rannsaka sjálfa sig og eiga þá til að sveigja niðurstöðurnar að eigin væntingum. Sjálfsskoðun er ekki lengur notuð.

Wundt lést árið 1920 og hafði þá skrifað um 500 bækur og greinar tengdar sálfræði og er formgerðarstefna sú stefna sem að er kennd við hann.

  • „Hver var Wilhelm Wundt og hvernig lagði hann grunninn að sálfræði sem vísindagrein?“. Vísindavefurinn.