Wulffmorgenthaler
Wulffmorgenthaler eru myndasögur sem birtst hafa á Netinu eftir Danina Anders Morgenthaler (myndir) og Mikael Wulff (texti). Myndasagan hóf göngu sína á hönnunargáttinni k10k.net en færði sig fljótlega yfir á eigið lén. Hún hefur einnig birst í danska tímaritinu Kaskelot og dagblaðinu Politiken.
Myndasagan hefur sérstakan stíl sem minnir eilítið á Far Side eftir Gary Larson og notar, líkt og Larson, mennsk dýr. Hver saga er sögð í einum ramma. Húmorinn er oft bæði kaldhæðinn og ofbeldisfullur.
Sjónvarpsþættirnir
[breyta | breyta frumkóða]Vorið 2005 voru svo framleiddir sjónvarpsþættir með sama nafni af Zentropa, framleiðslufyrirtæki Lars von Trier, fyrir Danska ríkisútvarpið (DR2) þar sem höfundar myndasögunnar sitja í leikmynd sem minnir á barnaþætti og fá til sín þekktar persónur úr myndasögunni eins og íkornann Magrit og bláa flóðhestinn Dolph. Inn á milli eru svo föst innslög um fornleifafræðingana Ansgar og Loke, spurningaþáttinn Vupti úr safni sjónvarpsins, Túkandrenginn sem er 28% fugl og skólaljósmyndarann Bent.
Um haustið var framleidd ný þáttaröð, Dolph og Wulff, sem í þetta sinn snerist aðallega um flóðhestinn og Wulff sem búa til þemaþætti um hluti eins og skemmtanabransann og dönsk stjórnmál. Þessari þáttaröð var síðan fylgt eftir með Dolph og Wulff og venner vorið 2006 þar sem uppsetningin er spjallþáttur í sjónvarpssal og þar sem fleiri dýr úr myndasögunni birtast.