Wikipedia:Grein mánaðarins/12, 2013
Sannleikur (eða sannleiki) er heimspekilegt hugtak, sem gegnir mikilvægu hlutverki í málspeki og þekkingarfræði, en er auk þess hluti af hversdagslegum orðaforða okkar og er eitt mesta grundvallarhugtak sem við búum yfir.
Þegar einhver er sammála fullyrðingu, segir hann að hún sé „sönn“. Þekkingarfræði, sem fjallar um eðli og uppsprettu þekkingar, leitar lausna á fjölmörgum heimspekilegum gátum um „sannleika“ en auk þess er sannleikshugtakið gríðarlega mikilvægt í málspeki og er nátengt merkingarhugtakinu.
Fyrsti vandi heimspekingsins er að ákveða hvers konar hlutir geti verið sannir eða ósannir, það er að segja að finna svonefnda sannbera. Í húfi er orðaforðinn, sem við notum til að fjalla um sannleikann. Síðan eru til fjölmargar kenningar um hvað geri sannberana sanna.