Wikipedia:Grein mánaðarins/09, 2017
Jarðhiti er eftir bókstaflegri merkingu orðsins sá hiti í jörðinni sem er umfram þann hita er ríkir við yfirborð jarðar. Með aukinni nýtingu jarðhitans á tuttugustu öldinni hefur merking orðsins þrengst nokkuð og er það nú fyrst og fremst notað um það fyrirbæri er heitt vatn og gufa kemur upp úr jörðinni á svokölluðum jarðhitasvæðum. Þegar greina þarf á milli fyrirbærisins jarðhita og þeirrar orku sem berst með vatni og gufu upp til yfirborðs er orðið jarðvarmi notað um orkuna. Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2009 telst jarðvarmi til endurnýjanlegrar orku.
Jarðhita má skilgreina sem varma sem berst til yfirborðs jarðar með varmaleiðni, rennandi vatni eða vatnsgufu. Varmi myndast í jarðmöttlinum og jarðskorpunni vegna geislavirkra efna. Varminn sem myndast, streymir frá heitu bergi upp til yfirborðs jarðar þar sem berglög eru kaldari. Mælikvarðinn á þetta varmaflæði er kallaður hitastigull og er hann í raun mælikvarði á það hvernig hiti breytist á lengdareiningu, hann sýnir í flestum tilfellum hvað hitinn eykst eftir því hversu djúpt er farið niður í jörðina. Mæling á hitastigli er einhver mikilvægasta rannsóknaraðferð sem notuð er við jarðhitakönnun.
Berg er slæmur varmaleiðari og þess vegna myndast svokallað iðustreymi í möttlinum en það veldur uppstreymi efnis á rekbeltum undir plötuskilum. Grynnst er að bráðnu berg á gos- og gliðnunarbeltunum og mjög grunnt á heit innskot. Þess vegna er jarðskorpan heitust þar og kólnar eftir því sem fjær dregur og berg verður eldra. Þar sem mikil eldvirkni er til staðar, eru berglögin ung, gropin og gegndræp. Það gerir það að verkum að vatnið á greiða leið niður í berglögin og flýtir það fyrir varmaflutningi frá heitum innskotunum til yfirborðsins.