Wikipedia:Grein mánaðarins/08, 2017
Balkanskagabandalagið var herbandalag sem sett var á fót árið 1912 með sáttmálum milli Balkanríkjanna Grikklands, Búlgaríu, Serbíu og Svartfjallalands og beindist gegn Tyrkjaveldi, sem réð á þeim tíma enn yfir stórum svæðum á Balkanskaga. Ófremdarástand hafði ríkt á Balkanskaga frá byrjun 20. aldarinnar vegna margra ára stríðsástands í Makedóníu, Ungtyrkjabyltingarinnar í Tyrklandi og umdeildrar innlimunar Bosníu og Hersegóvínu í Austurríki-Ungverjaland. Stríð Tyrkja við Ítali árið 1911 hafði einnig veikt stöðu Tyrkjaveldis og hleypt eldi í æðar Balkanríkjanna. Að áeggjan Rússa lögðu Serbía og Búlgaría deilumál sín til hliðar og gengu þann 13. mars árið 1912 í bandalag sem upphaflega átti að beinast gegn Austurríki-Ungverjalandi en beindist í reynd gegn Tyrkjaveldi eftir að leynilegum viðauka var bætt við samninginn. Serbía skrifaði svo undir bandalagssamning við Svartfjallaland og Búlgaría við Grikkland. Balkanskagabandalagið vann bug á Tyrkjum í fyrra Balkanstríðinu sem hófst í október 1912 og tókst að hafa af Tyrkjaveldi nánast öll evrópsk landsvæði þess. Eftir sigurinn kom hins vegar upp ágreiningur milli bandamannanna um skipti landvinninganna, sérstaklega Makedóníu, og leystist bandalagið í raun upp í kjölfarið. Litlu síðar réðst Búlgaría á fyrrum bandamenn sína og byrjaði síðara Balkanstríðið.