Wikipedia:Grein mánaðarins/01, 2023
Íraksstríðið var stríð, sem hófst þann 20. mars 2003 með innrás bandalags viljugra þjóða í Írak með Bandaríkin og Bretland í broddi fylkingar. Innan bandaríska hersins þekkist stríðið undir heitinu Operation Iraqi Freedom (e. „Aðgerð Íraksfrelsi“). Formlega stóð stríðið sjálft yfir frá 20. mars 2003 til 1. maí 2003 en þá voru allar stærri hernaðaraðgerðir sagðar yfirstaðnar. Við tók tímabil mikils óstöðugleika sjálfsmorðssprengjuárása, hermdarverka og launmorða sem margir kjósa að kalla borgarastyrjöld. Stríðinu lauk 18. desember 2011.
Ástæður sem gefnar hafa verið upp til réttlætingar á stríðinu hafa verið margs konar. Kofi Annan hefur, ásamt fleiri gagnrýnendum, haldið því fram að stríðið sé ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum en ekki náðist sátt um innrásina í öryggisráði S.Þ. líkt og tilfellið hafði verið í fyrra Persaflóastríðinu.