Wikipedia:Grein mánaðarins/01, 2017

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Titanic

Titanic er bandarísk kvikmynd frá árinu 1997 sem James Cameron leikstýrði, framleiddi og skrifaði. Myndin gerist um borð í hinu fræga skipi RMS Titanic sem sökk í jómfrúarsiglingu sinni. Myndin fjallar um unga stúlku og ungan pilt sem hittast um borð og verða ástfangin. Kvikmyndin er byggð á skáldsögu sem aftur er byggð á raunverulegum atburðum. Leonardo DiCaprio og Kate Winslet fara með aðalhlutverkin sem Jack Dawson og Rose DeWitt Bukater, ástfangið par hvort úr sinni stéttinni. Gloria Stuart fer með hlutverk Rose aldraðrar og er sögumaður kvikmyndarinnar.

Framleiðsla myndarinnar hófst árið 1995 þegar Cameron fór að flaki skipsins og tók upp atriði á sjávarbotninum. Atriðin sem að gerast í nútímanum voru tekin upp um borð í rússneska rannsóknarskipinu Akademik Mstislav Keldysh sem var einnig bækistöð Camerons þegar hann tók upp atriðin við Titanic. Skipið var seinna endursmíðað í Mexíkó og mörg líkön voru smíðuð til þess að endurskapa síðustu stundir skipsins. Í myndinni voru notaðar mjög háþróaðar tæknibrellur til þess að bæta við stafrænu fólki, vatni og reyk sem að var allt mjög ný tækni á þeim tíma. Myndin var dýrasta mynd allra tíma þegar hún var framleidd og kostaði rúmar 200 milljónir Bandaríkjadala en myndverin 20th Century Fox og Paramount Pictures reiddu fram fjármagnið.