Weather Underground

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Weather Underground Organization, líka þekkt sem The Weathermen, voru bandarísk róttæk vinstrihreyfing sem stóð fyrir fjölda fangaflótta og sprengjutilræða gegn stjórnarbyggingum og bönkum á 7. og 8. áratug 20. aldar. Samtökin voru stofnuð á háskólasvæði Michigan-háskóla í Ann Arbor árið 1969. Þau spruttu upp úr klofningi annarra samtaka, Students for a Democratic Society. Meðal tilræða sem samtökin stóðu fyrir voru sprengingar í United States Capitol 1971 og Pentagon 1972. Þrír meðlimir samtakanna létust við sprengjugerð í Greenwich Village árið 1970 en annars létust engir í sprengjutilræðum samtakanna. Nokkrir fyrrum meðlimir tóku þátt í ráni á brynvörðum bíl 1981 sem leiddi til dauða þriggja manna.

Samtökin leystust smám saman upp eftir lok Víetnamstríðsins 1975 og liðu undir lok árið 1977. Árið 1975 var róttæki aðgerðahópurinn Prairie Fire Organizing Committee stofnaður á grundvelli marx-lenínisma innan samtakanna. Sá hópur starfar enn. Nokkrir meðlimir gáfu sig fram við yfirvöld eftir að Jimmy Carter gaf út almenna sakaruppgjöf fyrir þá sem höfðu komið sér undan herþjónustu.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.