Vítusarkirkjan í Prag
Vítusarkirkjan er hluti af kastalasamstæðunni í Prag. Hún er dómkirkja og stærsta kirkja Tékklands. Kirkjan er helguð heilögum Vítusi. Í henni voru konungar Bæheims krýndir. Í grafhvelfingu eru grafir ýmissa konunga og keisara. Kirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO.
Saga kirkjunnar
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirrennarar
[breyta | breyta frumkóða]Saga kirkjunnar hófst 925 er heilagur Wenceslás reisti hringlaga kapellu á reitnum. Í kapelluna voru lagðar líkamsleifar heilags Vítusar (hönd) og var hún því helguð honum. Kapella þessi veik fyrir kirkju í rómönskum stíl sem Spytihněv II lét reisa 1060, enda varð Prag á þessu ári að biskupsdæmi. Nýja kirkjan var því miklu stærri og var með þrjú skip og tvo kóra.
Núverandi kirkja
[breyta | breyta frumkóða]Það var Karl IV konungur þýska ríkisins (og keisari 1355) sem lét reisa núverandi kirkju frá og með 1344, en á því ári var biskupsdæminu breytt í erkibiskupsdæmi. Nýja kirkjan átti að verða krýningarstaður, grafarstaður fyrir ætt hans, geymslustaður fyrir dýrgripi konungdómsins í Bæheimi og helgistaður fyrir líkamsleifar heilags Wenceslás. Byggingin reis í gotneskum stíl en hægt þó, því að byggingarmeistaranum var einnig falið að reisa Karlsbrúna og fleiri kirkjur í Bæheimi. Þegar hússítastríðin hófust 1419 var öllum framkvæmdum hætt. Í þokkabót eyðilögðu hússítar margar helgimyndir og annað sem minnti á kaþólska trú. Að auki olli bruni 1541 miklar skemmdir í hinni ókláruðu kirkju.
Notkun og verklok
[breyta | breyta frumkóða]Þrátt fyrir að kirkjan var ókláruð í fleiri hundruð ár, voru haldnar guðsþjónustur í henni. Fyrst kaþólskar en síðan notuðu kalvínistar kirkjuna til skamms tíma áður en kaþólikkar endurheimtu kirkjuna. Í kirkjunni voru allir konungar Bæheims krýndir síðan eftir daga Karls IV. Grafhvelfing kirkjunnar var tilbúin snemma og þar voru konungarnir síðan lagðir til hinstu hvíldar. Fjórir keisarar hvíla þar, en þeir voru allir konungar Bæheims í senn. Í kapellu heilags Wenceslás innan kirkjunnar voru krúnudjásn konunganna sett til geymslu. 1844 var aftur byrjað að smíða við kirkjuna. Í fyrstu var henni breytt að hluta en síðan var þakið fullklárað, turnarnir risu í fullri hæð, nýir gluggar settir í og allt innviðið fullklárað. Turnarnir eru 96 metra háir. Framkvæmdum lauk 1929. Vítusarkirkjan er bæði hæsta og stærsta kirkjubygging Tékklands. Lengd kirkjunnar er 124 m, hæð turnanna 96 m og skipið 60 m breitt. Á síðari árum var háð dómsmál kaþólsku kirkjunnar gegn ríkinu um eignarrétt á byggingunni en ríkið hafði tekið hana eignarnámi á kommúnistatímanum. 2007 var úrskurðað að ríkið tæki yfir notkun og viðhald á kirkjunni en varðveisla og annað fer fram af sérstakri nefnd sem báðir aðilar eiga fulltrúa í.
Kapella heilags Wenceslás
[breyta | breyta frumkóða]Innan Vítusarkirkjunnar er kapella heilags Wenceslás. Hún var smíðuð 1344-64 fyrir líkamsleifar heilags Wenceslás (höfuð). Kapellan er gríðarlega íburðarmikil. Hún er t.d. skreytt 1300 eðalsteinum og málverkum af píslargöngu Jesú frá 14. öld. Einnig eru myndir af ævi heilags Wenceslás, sem og stytta af honum. Kapellan er ekki opin almenningi en hægt er að líta inn í hana frá dyrunum. Í einu horni er lítil hurð með sjö lásum. Handan hennar er herbergi þar sem krúnudjásn konunga Bæheims eru geymd. Um er að ræða konungskórónuna (Wenceslás-kórónuna), veldissprotann og ríkiseplið en auk þess eru þar sverð heilags Wenceslás og ýmislegt annað. Krúnudjásnin hafa verið notuð í krýningar alveg frá 11. öld. Eftir að konungdómurinn var lagður niður í Bæheimi eru þau hins vegar aðeins til sýnis á vissum hátíðisdögum. Á 20. öld voru þau aðeins til sýnis í 9 skipti. Síðast voru þau til sýnis 2003 og 2008.
Klukkur
[breyta | breyta frumkóða]Í turnunum er klukknaverk með sjö klukkum. Stærst þeirra er Sigmundsklukkan en hún ein og sér vegur sautján tonn. Þar með er hún einnig ein allra stærsta kirkjuklukka heims. Fram til dagsins í dag er klukkunni hringt með mannafli en það tekur fjóra menn að hringja henni.
Grafhvelfing
[breyta | breyta frumkóða]Í grafhvelfingu kirkjunnar hvíla 17 manneskjur, aðallega konungar Bæheims og ættmenni þeirra. Í kirkjunni hvílir einnig heilagur Nepómúk en ekki í grafhvelfingunni, heldur ofanjarðar í feiknamikilli skrautkistu. Einstaklingar í grafhvelfingunni í tímaröð:
Röð | Einstaklingur | Ath. | Líftími |
---|---|---|---|
1 | Ottókar I Přemysl | Konungur Bæheims | 1155 – 1230 |
2 | Ottókar I Přemysl | Konungur Bæheims | 1232 – 1278 |
3 | Rúdolf II | Hertogi af Austurríki | 1271 – 1290 |
4 | Jútta af Habsborg | Eiginkona Wenceslás II | 1271 – 1296 |
5 | Wenceslás II | Konungur Bæheims | 1271 – 1305 |
6 | Rúdolf I | Konungur Bæheims | 1282 – 1307 |
7 | Bianca Margrét af Valois | Eiginkona Karls IV | 1317 – 1348 |
8 | Karl IV | Keisari þýska ríkisins | 1316 – 1378 |
9 | Wenzel IV | Konungur þýska ríkisins | 1361 – 1419 |
10 | Ladislás Postumus | Konungur Bæheims | 1440 – 1457 |
11 | Georg Podiebrad | Konungur Bæheims | 1420 – 1471 |
12 | Anna | Eiginkona Ferdinands I keisara | 1503 – 1547 |
13 | Ferdinand I | Keisari þýska ríkisins | 1503 – 1564 |
14 | Maximilian II | Keisari þýska ríkisins | 1527 – 1576 |
15 | Eleonóra | Dóttir Maximilians II | 1568 – 1580 |
16 | Rúdolf II | Keisari þýska ríkisins | 1552 – 1612 |
17 | Anna Amalía af Austurríki | Eiginkona Ferdinands II hertoga af Parma | 1746 – 1804 |
Gallerí
[breyta | breyta frumkóða]-
Krúnudjásn konunga Bæheims
-
Íburðarmikil kista heilags Nepómúks
-
Sigmundsklukkan
-
Vítusarkirkjan innan um kastalann í Prag, séð frá gömlu borginni handan Moldár
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Veitsdom“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. desember 2012.
- Fyrirmynd greinarinnar var „St. Vitus Cathedral“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 16. desember 2012.