Viggar (Bretland)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Viggar (Bretlandi))
Skopmynd af Viggum frá árinu 1783.

Viggar (Whigs á ensku) voru stjórnmálahreyfing og síðar stjórnmálaflokkur sem nutu áhrifa á þingum Englands, Skotlands, Bretlands og Írlands. Frá níunda áratug sautjándu aldar fram á sjötta áratug nítjándu aldar kepptust þeir um völd í Bretlandi við Tory-menn (þ.e.a.s. Íhaldsmenn). Viggar komu í upphafi saman sem stuðningsmenn þingbundinnar konungsstjórnar og andstæðingar einveldis. Viggarnir léku lykilhlutverk í dýrlegu byltingunni árið 1688 og gerðust höfuðandstæðingar Stuart-ættarinnar, sem var kaþólsk.

Viggar tóku við stjórn Bretlands árið 1715 og sátu við völd þar til Georg 3. varð konungur árið 1760 og leyfði Tory-mönnum að setjast í ríkisstjórn á ný. Viggar héldu völdum svona lengi vegna krýningar Hanover-ættarinnar með valdatöku Georgs 1. árið 1714 og misheppnaðrar uppreisnar Jakobíta árið 1715 sem Tory-menn studdu. Eftir uppreisnina hreinsuðu Viggar Tory-menn úr öllum áhrifastöðum í ríkisstjórninni, hernum, kirkjunni, lögsögunni og héraðsstjórnum. Með þessu varð hald Vigga á völdum svo sterkt og langlíft að sagnfræðingar nefna tímabilið frá 1714 til 1783 „Fáveldi Vigganna“ (Whig Oligarchy).[1] Fyrsti leiðtogi Vigganna sem komst til áhrifa var Robert Walpole. Hann fór fyrir ríkisstjórn Bretlands frá 1721–1742 og lærlingur hans, Henry Pelham, frá 1743 til 1754.

Bæði Viggarnir og Tory-flokkurinn urðu til sem laustengdar stjórnmálahreyfingar en árið 1784 voru báðar hreyfingarnar orðnar fastmótaðir stjórnmálaflokkar, sérstaklega þegar Charles James Fox varð leiðtogi Viggaflokksins og barðist ákaft gegn stjórnarstefnu William Pitt yngri, forsætisráðherra Tory-flokksins. Báðir flokkarnir reiddu sig meira á stuðning ríkra stjórnmálamanna en almennan stuðning í kosningum. Kosningar voru haldnar á neðri deild breska þingsins en fámennur hópur áhrifamanna stýrði beint eða óbeint flestum kjósendunum.

Stefnumál Vigga þróuðust smám saman á 18. öld. Venjulega studdu Viggar helstu aðalsfjölskyldur Bretlands, tilkall Hanover-ættarinnar til krúnunnar og voru umburðarlyndir gagnvart mótmælendum sem vildu ekki vera hluti af ensku biskupakirkjunni. Sumir Tory-menn studdu tilkall Stuart-ættarinnar og langflestir þeirra studdu ensku biskupakirkjuna og landeignarstéttina. Síðar fóru Viggar að sækja stuðning sinn til hinna rísandi iðnstétta og kaupmanna en Tory-menn til landeignaraðalsins og til konungsfjölskyldunnar. Á fyrri hluta 18. aldar fór hugmyndafræði Vigga að snúast um yfirburði þingsins gagnvart einvaldinum og stuðning við verslunarfrelsi. Auk þess fóru Viggar að styðja full borgaraleg réttindi kaþólikka, afnám þrælahalds og breiðari kosningarétt. Stuðningur Vigga við réttindi kaþólskra á 19. öld var í miklu ósamræmi við uppruna flokksins sem andkaþólsk hreyfing seint á 17. öld.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Holmes, Geoffrey, and Szechi, D., The Age of Oligarchy: Pre-Industrial Britain 1722–1783, Routledge, 2014, bls. xi