Fara í innihald

Vessakenningin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fjórar skapgerðir á mynd frá 18. öld.

Vessakenningin var kenning innan læknisfræði sem gekk út á að ofgnótt eða skortur á tilteknum líkamsvessum hefði áhrif á skapgerð og heilsu fólks. Þessi kenning rekur uppruna sinn til Hippókratesar og þróaðist meðal Forn-Grikkja og Rómverja. Vessakenningin varð mjög langlíf innan læknisfræðinnar og það var ekki fyrr en nútímalæknisfræði kom til sögunnar á 19. öld að hún leið undir lok.

Vessarnir fjórir eru svart gall (gríska: μέλαινα χολή, melaina kole) úr gallblöðrunni, gult gall (gríska: ξανθη χολή, xanþe kole) úr miltanu, slím (gríska: φλέγμα, flegma) úr lungunum og heilanum, og blóð (gríska: αἷμα, haima) úr lifrinni. Vessarnir samsvara skapgerðunum fjórum þar sem menn voru taldir melankólískir, gallríkir eða kólerískir, slímríkir eða flegmatískir, eða blóðríkir eftir því hvaða vessi væri ríkjandi. Vessakenningin gekk út á að jafnvægi yrði að ríkja milli vessanna til að líkaminn nyti fullrar heilsu. Til að endurheimta þetta jafnvægi hjá veikum einstaklingum var beitt aðferðum eins og blóðtöku, uppsölulyfjum, svitameðferðum og grasalækningum til að draga þá vessa sem of mikið var af út úr líkamanum.

Vessakenningin gekk út á að vessajafnvægið væri ólíkt hjá ólíkum einstaklingum og kallaði því eftir einstaklingsbundinni læknismeðferð. Hún var auk þess heildræn þar sem hún gerði ráð fyrir tengslum milli líkamsástands og geðlags. Frá Hippókratesi þróaðist vessakenningin innan íslamskrar læknisfræði og varð algengasta kenningin um verkun mannslíkamans meðal evrópskra lækna fram á nýöld. Á 17. öld urðu framfarir í efnafræði og rannsóknum á sóttkveikjum til þess að draga úr trú á vessakenningunni og hún var endanlega kveðin niður með kenningum Rudolf Virchow í meinafræði 1858. Hennar mátti þó enn sjá merki í alþýðulækningum og alþýðukenningum um næringu og heilsu allt fram á 20. öld.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.