Fara í innihald

Verðandi (1882)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Verðandimenn)

Verðandi var íslenskt tímarit sem kom út í Kaupmannahöfn árið 1882 og er upphaf raunsæisstefnunnar á Íslandi miðað við útgáfu þess. Aðeins kom út eitt hefti af tímaritinu en það hafði þó mikil áhrif á íslenskar bókmenntir.

Útgefendur tímaritsins voru fjórir ungir menntamenn sem allir voru eða höfðu verið við nám í Danmörku. Þetta voru þeir Gestur Pálsson, Einar H. Kvaran, Bertel Þorleifsson og Hannes Hafstein, sem var yngstur fjórmenninganna, rétt rúmlega tvítugur. Gestur og Einar birtu smásögur í tímaritinu en Hannes og Bertel ljóð. Sum ljóð Hannesar sem þarna birtust í fyrsta sinn urðu alþekkt, svo sem Stormur, Skarphéðinn í brennunni, Nei, smáfríð er hún ekki, Sprettur (Ég berst á fáki fráum) og Þar sem háir hólar, en af öðru efni tímaritsins er smásaga Gests, Kærleiksheimilið, líklega þekktust.

Ekki var neinn sérstakur inngangur eða stefnuyfirlýsing í tímaritinu en þó varð strax ljóst að þarna var ný stefna á ferðinni sem ekki hafði áður sést í íslenskum bókmenntum. Voru fjórmenningarnir kenndir við tímaritið og kallaðir Verðandimenn.