Fara í innihald

Veraldarvefurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Vefurinn)
Vefsíða birt með vafra.

Veraldarvefurinn eða Vefurinn (skammstafað WWW eftir enska heitinu World Wide Web) er kerfi með tengdum skjölum, oftast HTML-skjölum, sem finna má á Internetinu. Með netvafra getur vefnotandi skoðað vefsíður sem innihalda tengla á texta, hljóð, myndir og kvikmyndir. Vefurinn var hannaður 1989 af Bretanum Tim Berners-Lee sem vann þá hjá CERN í Genf og kynntur almenningi árið 1991.

Veraldarvefurinn er upplýsingasvæði sem birtir alls kyns skjöl í gegnum vefsíður með tengitexta samkvæmt HTML-staðlinum, þar sem vefsíður og ýmis önnur vefúrræði eru tengd saman með tenglum sem vísa í netslóðir þeirra. Skjölin eru ýmist birt í netvafra notenda eða margmiðlunarforritum. Vefforrit eru vefir sem virka eins og notendahugbúnaður og dæmi eru um vefsíður sem virka sem skrifstofuhugbúnaður, myndvinnsluforrit og tölvupóstforrit. Vafrar eru algengasti hugbúnaðurinn sem notaður er til að vafra um Veraldarvefinn, en síðustu ár hefur notkun sérhæfðra notendaforrita til að nota tiltekna vefi farið vaxandi. Samfélagsmiðlar eru til dæmis hannaðir sem vefþjónusta sem birtist meðal annars sem vefsíður, en líka sem ýmsar gerðir smáforrita.

Skyld vefúrræði sem birtast undir sama léni mynda oft einn vef. Vefir eru geymdir og birtir af vefþjónum sem keyra á netþjóni. Netvafrar og önnur forrit sem birta upplýsingar af Veraldarvefnum nota HTTP-samskiptastaðalinn til að eiga samskipti við vefþjóna.

Veraldarvefurinn er ein þekktasta birtingarmynd Internetsins þannig að í daglegu tali er oft talað um „Netið“ eða „Internetið“ þegar í raun er aðeins átt við Veraldarvefinn.[1] Veraldarvefurinn hefur haft mjög mikil áhrif á daglegt líf fólks um allan heim[2][3][4] og milljarðar manna nota Vefinn daglega til að eiga samskipti sín á milli, sækja sér upplýsingar og afla sér þekkingar.[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „What is the difference between the Web and the Internet?“. W3C Help and FAQ. W3C. 2009. Sótt 16. júlí 2015.
  2. World Wide Web Timeline. Pews Research Center. 11. mars 2014. Sótt 1. ágúst 2015.
  3. Dewey, Caitlin (12. mars 2014). 36 Ways The Web Has Changed Us. The Washington Post. Sótt 1. ágúst 2015.
  4. Website Analytics Tool. Sótt 1. ágúst 2015.
  5. „What is the difference between the Web and the Internet?“. W3C Help and FAQ. W3C. 2009. Afrit af uppruna á 9. júlí 2015. Sótt 16. júlí 2015.
  Þessi tölvunarfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.