Vallalaug
Útlit
Vallalaug er heit uppspretta í landi Ytra-Vallholts í Vallhólmi í Skagafirði. Laugin er miðsvæðis í héraðinu og þar var samkomustaður og stundum þingstaður fyrr á öldum. Þar var Sturla Sighvatsson með menn sína fyrir Örlygsstaðabardaga 1238 og stundum er getið um að menn hafi komið saman við Vallalaug. Seinna var þar þriggja hreppa þing (fyrir Akrahrepp, Seyluhrepp og Lýtingsstaðahrepp) og kemur þingstaðurinn oft við sögu í gömlum dómum og öðrum heimildum. Seinast mun hafa verið þingað við Vallalaug um miðja 18. öld.
Laugin má nú heita horfin þar sem hún var virkjuð til hitaveitu. Ógreinilegar tóftir eru nálægt lauginni, líklega af gömlum búðum.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar II. bindi. Staðarhreppur - Seyluhreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2001. ISBN 978-9979-861-10-2