Valerían og Lárelína
Valerían og Lárelína (franska: Valérian et Laureline) er heiti á vinsælum frönskum teiknimyndasögum í vísindaskáldsögustíl eftir höfundinn Pierre Christin og listamanninn Jean-Claude Mézières. Fyrsta sagan birtist upprunalega í teiknimyndablaðinu Pilote árið 1967. Sögurnar segja frá ævintýrum Valeríans og Lárelínu, tveggja fulltrúa geim-tíma stofnunarinnar á jörðu, á ferð sinni um óravíddir alheimsins í fjarlægri framtíð. Serían markaði þáttaskil í útgáfu evrópskra teiknimyndasagna og hafði umtalsverð áhrif á sviði vísindaskáldsagna í kvikmyndagerð. Hafa ýmsir talið að Stjörnustríðskvikmyndir George Lucas hafi sótt innblástur í sögurnar um Valerían og Lárelínu, en Lucas hefur þó aldrei látið hafa neitt eftir sér opinberlega um það. Sögurnar hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og eru í hópi mest seldu teiknimyndasagna franska útgefandans Dargaud. Á árinu 2007 hófu göngu sína í sjónvarpi teiknimyndir gerðar upp úr sögunum og sumarið 2017 var frumsýnd kvikmynd um ævintýri Valeríans og Lárelínu, Valerian and the City of a Thousand Planets, sem leikstýrt var af franska leikstjóranum Luc Besson. Áður hafði Besson raunar stuðst við teikningar úr bókunum við gerð kvikmyndarinnar The Fifth Element frá árinu 1997.
Alls komu út 22 bækur um ævintýri Valeríans og Lárelínu í samstarfi þeirra Christin og Mézières, auk nokkurra styttri sagna. Mézières lést í ársbyrjun 2022 og í júní sama ár kom út ný bók um Valerían og Lárélínu. Bókin, sem heitir á frummálinu La ou naissent les histoires, er skrifuð af Christin og teiknuð af Virginie Augustin.
Íslensk útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Fimm bækur um ævintýri Valeríans og Lárelínu hafa komið út á íslensku. Þúsund stjarna veldið (f. L'Empire des mille planètes) var gefin út af Fjölva árið 1979 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Er bókin fyrsta teiknimyndasagan í fullum litum sem prentuð var hér á landi og braut þannig blað í íslenskri prentsögu. Valdabrautin (f. Les Cercles du pouvoir) var gefin út af Nordic Comic árið 1999 í íslenskri þýðingu Jóns B. Guðlaugssonar. Í þeirri bók eru Valerían og Lárelína raunar kölluð Valur og Lára. Heitið sem bókaflokknum var gefið árið 1979 var "VALERÍAN sendimaður í tímafirð", en árið 1999 "Ævintýri VALS geim- og tímaspæjara". Árið 2017 gaf Froskur útgáfa út safnrit með þremur fyrstu ævintýrum sagnaflokksins, þar á meðal Þúsund stjarna veldinu í þýðingu Þorsteins Thorarensen. Yfirskrift þeirrar bókar var "Valerian". Annað bindi safnritsins kom út árið 2018 og það þriðja og síðasta árið 2020.
Titlar
[breyta | breyta frumkóða]Listinn sýnir nöfn og útgáfuár bókanna á frönsku og íslenskt heiti og útgáfuár þar sem við á. Þrátt fyrir að sagan Spellvirki í draumaverinu sé fyrsta ævintýrið sem kom fyrir augu lesenda (í Pilote árið 1967) kom hún ekki út í bókarformi fyrr en árið 1983. Þar sem næsta saga, Háskaflóð í skýjaborg, hafði þá fengið númerið 1 í seríunni var Spellvirki í draumaverinu númeruð 0.
- Spellvirki í draumaverinu (Les Mauvais Rêves, 1983) [Ísl. útg. 2017]
- Háskaflóð í skýjaborg (La Cité des eaux mouvantes, 1970) [Ísl. útg. 2017]
- Þúsund stjarna veldið (L'Empire des mille planètes, 1971) [Ísl. útg. 1979 og 2017]
- Hulinn heimur (Le Pays sans étoile, 1972) [Ísl. útg. 2018]
- Glíman um Teknórog (Bienvenue sur Alflolol, 1972) [Ísl. útg. 2018]
- Fuglahöfðinginn (Les Oiseaux du Maître, 1973) [Ísl. útg. 2018]
- Erindreki skugganna (L'Ambassadeur des Ombres, 1975) [Ísl. útg. 2020]
- Á fölskum jörðum (Sur les terres truquées, 1977) [Ísl. útg. 2020]
- Skapari kynslóðanna (Les Héros de l’équinoxe, 1978) [Ísl. útg. 2020]
- Métro Châtelet, direction Cassiopée (1980)
- Brooklyn Station, terminus cosmos (1981)
- Les Spectres d'Inverloch (1984)
- Les Foudres d’Hypsis (1985)
- Sur les frontières (1988)
- Les armes vivantes (1990)
- Valdabrautin (Les cercles du pouvoir, 1994) [Ísl. útg. 1999]
- Otages de l'Ultralum (1996)
- L'Orphelin des astres (1998)
- Par des temps incertains (2001)
- Au bord du Grand Rien (2004)
- L'Ordre des Pierres (2007)
- L'ouvre-temps (2010)