Fara í innihald

Uppsalahofið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Teikning af Uppsalahofinu úr bókinni Historia de Gentibus Septentrionalibus eftir Olaus Magnus (útgefin 1555). Um hofið var hengd gullkeðja, einnig má sjá tré það hið mikla sem fórnardýr og menn voru hengd upp í.

Uppsalahofið var trúarhof, aðallega reist til að dýrka Frey, í Gömlu Uppsölum, nálægt Uppsölum nútímans í Svíþjóð. Hofið er einna þekktast af lýsingum Adams frá Brimum, en kemur einnig fyrir í fornsögunum, hjá Saxo Grammaticus og í Heimskringlu. Gömlu Uppsalir voru miðstöð ásatrúar í Svíþjóð. Eftir kristnitöku á 11. öld hætti dýrkun á ásunum og í þeirra stað urðu Uppsalir mikilvæg miðstöð kirkjunnar.

Í lýsingu Adams frá Brimum á Uppsalahofinu og umhverfi þess segir frá hvernig dýrum var sökkt í blótkeldu, menn og dýr hengu á greinum í blótlundinum, og gert var ráð fyrir, að Freyr kæmi í lundinn. En hann var sagður þar gestur. Í hofinu voru skurðgoð, Freyr mest tignaður, sýndur blygðunarlaust með tákn frjóvgunarinnar til þess að glæða umhyggju hans fyrir ársæld. Blótsöngvarnir lutu að hinu sama. Í blótveislum var goðunum í senn veitt (sbr. siðinn að stökkva blóði á stalla og myndir goða) og gestunum aukinn máttur, er þeir átu kjöt fórnardýra og drukku signað mungát og mjöð.

Snorri Sturluson skrifar um blótin að Uppsölum, og segir í Heimskringlu:

Dómaldi tók arf eftir föður sinn Vísbur og réð löndum. Á hans dögum gerðist í Svíþjóð sultur og seyra. Þá efldu Svíar blót stór að Uppsölum. Hið fyrsta haust blótuðu þeir yxnum og batnaði ekki árferð að heldur. En annað haust hófu þeir mannblót en árferð var söm eða verri. En hið þriðja haust komu Svíar fjölmennt til Uppsala þá er blót skyldu vera. Þá áttu höfðingjar ráðagerð sína og kom það ásamt með þeim að hallærið mundi standa af Dómalda konungi þeirra og það með að þeir skyldu honum blóta til árs sér og veita honum atgöngu og drepa hann og rjóða stalla með blóði hans, og svo gerðu þeir.