Fara í innihald

Ungmennafélagið Austri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ungmennafélagið Austri
Fullt nafn Ungmennafélagið Austri
Stofnað 1939
Leikvöllur Eskifjarðarvöllur
Stærð Óþekkt
Heimabúningur
Útibúningur

Ungmennafélagið Austri Eskifirði er íþróttafélag í þorpinu Eskifirði sem er hluti sveitarfélagsins Fjarðabyggðar. Félagið var stofnað árið 1939 og leggur stund á knattspyrnu, sund og skíði. Knattspyrnumenn Austra keppa þó yfirleitt undir merkjum Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar. Austri tefldi síðast fram eigin kappliði á Íslandsmóti karla í knattspyrnu sumarið 1993.

Sagan[breyta | breyta frumkóða]

Eskfirðingar sendu lið til keppni í þriðju deild Íslandsmótsins árið 1968 þegar sérstökum Austurlandsriðli var komið á laggirnar. Liðið lék þar sleitulaust til ársins 1977 þegar Austramenn fóru með sigur af hólmi í riðlinum og unnu því næst sinn úrslitariðil eftir harða keppni við Leikni Reykjavík og Grindavík. Ekki tókst að setja niður úrslitaleik við Fylki um þriðjudeildartitilinn og var Reykjavíkurliðið úrskurðað meistari.

Árin í næstefstu deild urðu þrjú. Bestur varð árangurinn 1978 þegar Austri náði sjötta sæti í tíu liða deild með 18 stig, einungis þremur stigum á eftir Haukum í næstefsta sæti. Þetta sumar gerðu Austramenn 2:2 jafntefli gegn KR-ingum á útivelli, sem léku þarna sitt eina sumar í næstefstu deild. Róðurinn varð þyngri árið eftir. Austri og Reynir Sandgerði höfnuðu í áttunda og níunda sæti deildarinnar með fimmtán stig. Markatala Austra var lakari en í samræmi við gildandi reglur var leikinn aukaleikur um sætið þar sem Eskfirðingar unnu í vítakeppni eftir markalaust jafntefli. Þriðja árið lentu Eskfirðingar rækilega á botninum. Unnu aðeins einn leik en gerðu þó sjö jafntefli í leikjunum átján. Versti skellurinn og stærsti í sögu félagsins kom á móti KA-mönnum, 11:1.

Eskfirðingar héldu sér í þriðju deild næstu árin, en féllu niður í þá fjórðu sumarið 1987. Liðið fór strax aftur upp árið eftir, en féll þá enn á ný. Austri lék í fjórðu efstu deild til og með 1993. Það ár enduðu bæði Austri og Valur Reyðarfirði í neðri hluta Austfjarðariðilsins. Í kjölfarið var ákveðið að sameina meistaraflokka félaganna fyrir keppnistímabilið 1994.

Besti árangur Austra í bikarkeppni KSÍ var 16-liða úrslit árin 1984 og 1986.