Tvísöngur
Tvísöngur eða fimmundasöngur er séríslenskt afbrigði af tveggja radda söng sem einkennist af því að sungið er í fimmundum og að raddirnar krossast.
Talið er að tvísöngur hafi borist hingað á öldunum eftir kristnitöku og að þá hafi verið um að ræða hefð sem einnig var kunn á meginlandi Evrópu, að syngja mótrödd við kaþólska kirkjusönginn, sléttsöng eða gregoríanskan söng. Slíkur söngur er stundum kallaður latneska heitinu cantus planus binatim og var hann (og fjölröddun almennt á fyrstu öldum hennar) helst notaður á hátíðisdögum kirkjunnar, til gefa þeim aukið vægi og hátíðleika.[1]
Elsta dæmið um ritaða heimild þar sem fjallað er um tvísöng á Íslandi er í Lárentíus sögu Kálfssonar, en Lárentíus var biskup á Hólum í Hjaltadal 1324-1331. Þar segir að Lárentíus hafi hvorki viljað láta "tripla eða tvísyngja, kallandi þat leikaraskap, heldr syngja sléttan söng eftir því sem tónað væri á kórbókum".[2] Þetta gefur til kynna að aukarödd tvísöngs hafi a.m.k. stundum verið spunninn á staðnum, þ.e. ekki skrifuð á "kórbækur", og einnig má lesa úr textanum að bæði hafi slíkur söngur farið fram í tveimur og þremur röddum.[3]
Elstu dæmi sem varðveist hafa um íslenskan tvísöng á nótum eru brot úr tveimur skinnhandritum frá því fyrir eða um 1500. Handritsbrotið AM 80 b 8vo var ritað af Jóni Þorlákssyni, sem var afkastamesti íslenski nótnaskrifari sem vitað er um á 15. öld, árið 1473 og tilheyrði bók sem gefin var munkaklaustrinu á Munkaþverá. Á blaðinu er hluti Agnus Dei og Credo (trúarjátningarsöngs) skrifaður tvíradda með latneskum texta, en á milli nótnastrengjanna skrifaði Jón upplýsingar um hvenær bókin var rituð og hver tilgangur hennar var, og er það eflaust ástæða þess að þetta blað varðveittist en hin ekki.[4] Seinna brotið er, AM 687 b 4to, var ritað um 1500 og hefur að geyma ýmsa söngva í tveimur röddum, og einnig stutt messutón fyrir þrjár raddir.[5]
Ýmis fleiri dæmi er að finna í gömlum íslenskum handritum um tvísöngva, meðal annars í handritinu Melódía (Rask 98) sem ritað var um 1660-1670, og tvísöngskveri aftast í handritinu AM 102 8vo, sem ritað var um svipað leyti eða ögn síðar. Af þessu má ráða að sá gamli söngur sem upphaflega barst hingað til lands með kaþólskum sið lifði áfram eftir siðaskipti. Sum laganna voru sungin áfram við latneska texta en einnig mátti syngja lútherska sálma og önnur lög í tvísöng.[6]
Á 18. öld dó smám saman út sú hefð sem hafði fóstrað tvísönginn, jafnhliða því að tónlistarkennsla lagðist af við íslensku latínuskólana í Skálholti og á Hólum. Á 19. öld var orðin til munnleg hefð tvísöngs og var þar að flestu leyti um önnur lög að ræða, en þó eiga báðar tvísöngshefðirnar eitt lag sameiginlegt (Rís upp, Drottni dýrð/Drottins hægri hönd).[7]
Raddirnar í tvísöng skiptast í laglínu og fylgirödd (í nótum kallað vox principalis og vox organalis, eða bassi og tenór). Í þjóðlagasafni séra Bjarna Þorsteinssonar er að finna rúmlega 40 tvísöngva sem Bjarni skrifaði sjálfur upp, en hann kunni tvísöng vel og var auk þess giftur inn í eina mestu tvísöngsfjölskyldu landsins, Blöndal-ættina.[8] Auk þess skrifaði Bjarni upp fjölmarga tvísöngva úr gömlum handritum eins og þeim sem nefnd eru hér að ofan.
Stundum er talað um tvær aðferðir við flutning tvísöngva. Annars vegar er sungið í tvísöng og hins vegar kveðið í tvísöng, en þau lög eru styttri og er aðeins sungið í fimmundum í hluta þeirra. Stundum eru þau lög kölluð tvísöngsstemmur.[9]
Tvísöngur dó út sem lifandi hefð snemma á 20. öld. Tónskáldið Jón Leifs hljóðritaði allnokkra tvísöngva árið 1928 og þýski tónlistarfræðingurinn Erich M. von Hornbostel gaf út ítarlega greiningu á þeim árið 1930.[10] Á seinni árum hafa tónskáld notað tvísöng sem innblástur í tónverk sín, og má þar nefna Jón Leifs (til dæmis Íslensk prelúdía op. 2 nr. 2) og Jón Nordal (Kveðið í bjargi og Tvísöngur). Þá má heyra áhrif tvísöngs í laginu Jóga af plötu Bjarkar Guðmundsdóttur, Homogenic (1997).[11] Árið 2004 gaf Smekkleysa út geisladiskinn Tvísöngur þar sem má finna fjölmörg dæmi um tvísöngva flutta af karlaröddum Schola cantorum og sönghópnum Feðranna frægð undir stjórn Árna Heimis Ingólfssonar tónlistarfræðings. Diskurinn fékk afar lofsamlega dóma og sagði Bergþóra Jónsdóttir, gagnrýnandi Morgunblaðsins, hann vera einn þann áhugaverðasta sem komið hafi út á árinu.[12]
Dæmi um tvísöngva
[breyta | breyta frumkóða]Sungið í tvísöng:
- Ég söng þar út öll jól
- Fönnin úr hlíðinni fór
- Gefðu, að móðurmálið mitt
- Hún er suðr'í hólunum (Grýlukvæði)
- Húmar að mitt hinsta kvöld
- Kláus hákarl margan myrti
- Ljósið kemur langt og mjótt/Halla kerling fetar fljótt
- Man ég þig, mey
- Nú er hann kominn á nýja bæinn
- Ísland farsældar frón
- Ó mín flaskan fríða
- Séra Magnús
- Skipafregn (Vorið langt)
- Það mælti mín móðir
Kveðið í tvísöng:
- Enginn grætur Íslending
- Farvel Hólar fyrr og síð
- Hér er ekkert hrafnaþing
- Höldum gleði hátt á loft
- Lækurinn
- Yfir kaldan eyðisand
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Tvísöngur Geymt 9 febrúar 2019 í Wayback Machine á folkmusik.is
- Bjarni Þorsteinsson (1906). „Íslensk þjóðlög“. Carlsbergsjóðurinn.
- Árni Heimir Ingólfsson. „AM 102 8vo: Kvæða- og tvísöngsbók frá Vestfjörðum.“ Í Góssið hans Árna, ritstj. Jóhanna Katrín Friðriksdóttir. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2014, 36–49.
- Árni Heimir Ingólfsson. „Tvísöngskver frá um 1500.“ Í 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar, ritstj. Svanhildur Óskarsdóttir. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Bókaútgáfan Opna, 2013.
- Árni Heimir Ingólfsson. „‘These are the Things You Never Forget’: The Written and Oral Transmission of Icelandic Tvísöngur.“ Doktorsritgerð, Harvard University, 2003.
- Erich M. von Hornbostel. „Phonographierte isländische Zwiegesänge.“ Í Deutsche Islandforschung 1930, ritstj. Walther Heinrich Vogt (Breslau: Ferdinand Hirt, 1930), 300-320.
- ↑ Árni Heimir Ingólfsson (2003). “These are the Things You Never Forget”: The Written and Oral Traditions of Icelandic Tvísöngur. Doktorsritgerð, Harvard University.
- ↑ Biskupa sögur. Guðrún Ása Grímsdóttir. 1999. bls. 375-376.
- ↑ Árni Heimir Ingólfsson (2003). “These are the Things You Never Forget”: The Written and Oral Traditions of Icelandic Tvísöngur. Doktorsritgerð, Harvard University. bls. 27.
- ↑ Árni Heimir Ingólfsson (2003). “These are the Things You Never Forget”: The Written and Oral Traditions of Icelandic Tvísöngur. Doktorsritgerð, Harvard University. bls. 42-69.
- ↑ Árni Heimir Ingólfsson (2013). Tvísöngskver frá um 1500, í 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar, ritstj. Svanhildur Óskarsdóttir. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Bókaútgáfan Opna.
- ↑ Árni Heimir Ingólfsson (2014). „AM 102 8vo: Kvæða- og tvísöngsbók frá Vestfjörðum.“ Í Góssið hans Árna, ritstj. Jóhanna Katrín Friðriksdóttir. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. bls. 36–49.
- ↑ Árni Heimir Ingólfsson (2003). “These are the Things You Never Forget”: The Written and Oral Traditions of Icelandic Tvísöngur. Doktorsritgerð, Harvard University.
- ↑ Bjarni Þorsteinsson (1906–1909). Íslenzk þjóðlög.
- ↑ Árni Heimir Ingólfsson (2003). “These are the Things You Never Forget”: The Written and Oral Traditions of Icelandic Tvísöngur. Doktorsritgerð, Harvard University. bls. 181-195.
- ↑ Erich M. von Hornbostel (1930). Phonographierte isländische Zwiegesänge.” Í Deutsche Islandforschung 1930, ritstj. Walther Heinrich Vogt. bls. 300-320.
- ↑ Árni Heimir Ingólfsson (2003). “These are the Things You Never Forget”: The Written and Oral Traditions of Icelandic Tvísöngur. Doktorsritgerð, Harvard University. bls. 250-255.
- ↑ Bergþóra Jónsdóttir (2004). Miklu meira en flaskan fríða. Morgublaðið, 27. desember. bls. 15.